Svanhildur Konráðsdóttir skipuð formaður Ferðamálaráðs
Kristján L. Möller samgönguráðherra hefur skipað Svanhildi Konráðsdóttur formann Ferðamálaráðs. Ráðherra hefur einnig skipað Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmann iðnaðarráðherra, sem varaformann ráðsins.
Ferðamálaráði var fengið nýtt hlutverk með lögum um skipan ferðamála sem tóku gildi í ársbyrjun 2006. Helstu verkefni þess eru að gera, einu sinni á ári eða oftar, tillögu til ráðherra um markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar. Jafnframt er það ráðherra til ráðgjafar um áætlanir í ferðamálum og veitir umsagnir um breytingar á lögum og reglum er varða ferðamál.
Í Ferðamálaráði eiga sæti tíu fulltrúar. Formaður og varaformaður eru skipaðir af samgönguráðherra án tilnefningar en aðra fulltrúa skipar ráðherra eftir tilnefningu eftirtalinna: Samtaka ferðaþjónustunnar sem tilnefna þrjá fulltrúa, Sambands íslenskra sveitarfélaga sem tilnefnir tvo fulltrúa, Ferðamálasamtaka Íslands sem tilnefna tvo fulltrúa og Útflutningsráðs Íslands sem tilnefnir einn. Skipunartími ferðamálaráðs skal vera fjögur ár en skipunartími formanns og varaformanns skal þó takmarkaður við embættistíma ráðherra. Ferðamálastjóri og fulltrúi ráðuneytisins sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt.
Nýr formaður Ferðamálaráðs, Svanhildur Konráðsdóttir, er sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Hún situr meðal annars í stjórn Austurhafnar er stendur fyrir byggingu tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík og í stjórn Ráðstefnuskrifstofu Íslands.