Sveinn Rúnar hlaut Uppsveitabrosið 2012
Sveinn Rúnar Traustason, umhverfisstjóri Ferðamálstofu, hlaut Uppsveitabrosið 2012, viðurkenningu sem veitt er árlega, einstaklingum eða fyrirtæki sem hafa lagt ferðaþjónustunni í Uppsveitum Árnessýslu lið á jákvæðan, uppbyggilegan hátt.
Senda út jákvæð skilaboð
„Markmiðið er að senda út jákvæð skilaboð og vekja athygli á því sem vel er gert. Þetta er í níunda sinn sem brosið er afhent, en hugmyndin kviknaði í stefnumótunarvinnu 2003,“ segir Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu.
Samvinna undirstaða góðra verka
Í rökstuðningi segir að Uppsveitirnar hafa átt einstaklega gott samstarf og samskipti við Svein Rúnar umhverfisstjóra undanfarin ár vegna ýmissa verkefna sem unnin hafa verið á svæðinu og í tengslum við það og vilja með þessu vekja athygli á því sem vel er gert. Samvinna er ávallt undirstaða góðra verka.
Verðlaunagripur úr héraði
Uppsveitabrosið sjálft er óáþreifanlegt en því fylgja jafnan handgerðir hlutir úr heimabyggð. Að þessu sinni er það
„Matarkista Uppsveitanna“ þ.e. sýnishorn af matvælaframleiðslu á svæðinu. Mikill almennur áhugi er á staðbundinni
matvælaframleiðslu „local food“ beint frá býli o.s.frv. og Uppsveitir Árnessýslu eru mikil matarkista, þar er framleitt fjölbreytt
úrval matvæla, grænmeti og landbúnaðarafurðir svo fátt eitt sé nefnt. Undanfarið hefur verið lögð rík áhersla
á upprunamerkingar, fullvinnslu afurða og matarminjagripi. Vettvangsheimsóknir í fyrirtæki eru vinsælar meðal ferðamanna jafnt íslenskra sem
og erlendra t.d. í garðyrkjustöðvar og í byggingu er ferðamannafjós þar sem hægt verður að fylgjast með mjöltum og úrvinnslu
afurða.
Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu, afhenti Sveini Rúnari brosið sl. föstudag.