Svipaður gistináttafjöldi í maí
Gistinætur á hótelum í maí síðastliðnum voru 117.000 en voru 117.900 í sama mánuði árið 2008. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi og á Norðurlandi en í öðrum landshlutum fækkaði þeim milli ára. Þetta kemur fram í gistináttatölum Hagstofunnar.
Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Suðurlandi úr 12.400 í 13.900 eða um rúm 12% miðað við maí 2008. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum úr 9.000 í 9.800 eða um tæp 9% miðað við sama mánuð í fyrra. Hlutfallslega fækkaði gistinóttum mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða, úr 10.400 í 7.900 eða um 24%. Gistinóttum fækkaði einnig á Austurlandi úr 4.700 í 4.300 eða um rúm 9%. Á Höfuðborgarsvæðinu var fjöldi gistinátta svipaður milli ára eða rúm 81.000. Í þessum tölum munar mest um Íslendinga því að fjöldi gistinátta erlendra ríkisborgara er svipaður.
Fjölgun gistinátta erlendra gesta fyrstu fimm mánuði ársins
Fjöldi gistinátta á hótelum fyrstu fimm mánuði ársins voru 420.500 en voru 428.700 á sama tímabili árið 2008. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi um 8% og á Norðurlandi um 4%. Á öllum öðrum landsvæðum fækkaði gistinóttum, mest á Austurlandi um 21%. Fyrstu fimm mánuði ársins fækkaði gistinóttum Íslendinga um 14% á meðan gistinóttum erlendra ríkisborgara fjölgaði um 3% miðað við sama tímabil árið 2008.