Tæplega 2 milljónir gistinátta á síðasta ári
Út er komið ritið Gistiskýrslur 2003 þar sem birtar eru niðurstöður úr gistináttatalningu Hagstofu Íslands fyrir árið 2003. Þar kemur fram að gistinætur voru samtals 1.984.448 árið 2003 sem er 6,7% fjölgun frá árinu 2002.
Gistinóttum fjölgaði milli áranna 2002 og 2003 á hótelum og gistiheimilum (8,6%), svefnpokagististöðum (25,4%), skálum í óbyggðum (10,7%), farfuglaheimilum (7,5%) og í orlofshúsabyggðum (0,5%). Gistinóttum fækkaði á heimagististöðum (-3,5%) og á tjaldsvæðum (-0,1%). Í frétt frá Hagstofunni segir að heimtur gistiskýrslna árið 2003 hafi verið góðar og voru til að mynda yfir 93% á hótelum og gistiheimilum alla mánuði ársins. Í heftinu eru niðurstöður talningarinnar birtar í töflum, myndum og yfirlitum en mun ítarlegra talnaefni er að finna á heimasíðu Hagstofunnar.
Á prenti og Netinu
Gistiskýrslur eru hluti af ritröðinni Hagtíðindi sem Hagstofan gefur út og inniheldur alls 16 efnisflokka. Hagtíðindi er hægt að kaupa á prenti, bæði einstök hefti og í áskrift. Þá er hægt að skoða og hlaða niður Hagtíðindum á rafrænu formi (pdf) án endurgjalds á heimasíðu Hagstofunnar.