Þingsályktun um ferðamál samþykkt á alþingi
Alþingi samþykkti nú í morgun þingsályktun um ferðamál samhljóða. Með samþykkt áætlunar um ferðamál fyrir árin 2006-2015 er í reynd komin grunnur að stefnumótun stjórnvalda hvað varðar áherslur þeirra í þróun greinarinnar næstu 10 ár.
Í áætluninni koma fram markmið, leiðir og áherslur stjórnvalda í fjölmörgum grunnþáttum greinarinnar. Þetta kom skýrt fram í máli Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra þegar hann mælti fyrir málinu er þar sagði m.a. ?Ferðaþjónustan er mjög vaxandi atvinnugrein hér á landi og því brýnt að henni sé mótuð skýr stefna til framtíðar af hálfu stjórnvalda. Atvinnurekendum og neytendum sé þannig ljóst á hverjum tíma hverjar séu áherslur hins opinbera gagnvart framtíðaruppbyggingu greinarinnar.?
Geysilega mikilvægt
Magnús Oddsson ferðamálstjóri var formaður stýrihóps sem vann þá tillögu fyrir samgönguráðherra sem ráðherrann byggði þingsályktunartillöguna á, sem nú hefur verið samþykkt sem heildaráætlun í ferðamálaum. ?Það er geysilega mikilvægt að nú skuli í fyrsta sinn liggja fyrir slík áætlun frá Alþingi, sem er samþykkt eftir miklar almennar og jákvæðar umræður um ferðamál í þinginu síðustu vikur," segir Magnús. "Þetta hljóta að teljast ákveðin tímamót, því þó að unnið hafi verið í samræmi við stefnumótun útgefinni af samgönguráðuneyti fyrir árin 1996-2005, þá er munurinn sá að nú hefur ályktun með meginmarkmiðum í ferðamálum til næstu 10 ára verið samþykkt á Alþingi, sem gefur henni eðlilega annað og þyngra vægi við framkvæmd stefnu stjórnvalda 2006-2015,? segir Magnús.
Skýrslu stýrihópsins sem ályktunin byggir á má nálgast á vef samgönguráðuneytsins.
Ferðamálaáætlun 2006-2015 (PDF-skjal)
Ljósmynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.