Þolmarkarannsóknir mikilvægur grunnur stefnumótunar
Í árslok 2014 ákvað Ferðamálastofa að verja talsverðri fjárhæð, eða 65 milljónum króna, í að styðja við svokallaðar þolmarkarannsóknir á sviði ferðamála með myndarlegum hætti. Niðurstöður þeirra voru kynntar á ráðstefnu í lok síðustu viku.
Ástæður þess að Ferðamálastofa ákvað að ráðast í verkefni voru einkum þessar:
- Mikil fjölgun ferðamanna á undanförnum árum
- Áhyggjur af álagi á vinsæla og viðkvæma ferðamannastaði
- Vísbendingar um að mögulega væri farið að gæta óþreyju meðal þeirra sem saman skapa eina helstu auðlind ferðaþjónustunnar, samfélagið og þjóðina sjálfa
- Skort á grunngögnum á ákveðnum sviðum þolmarkarannsókna og þá von að með þessu framtaki gæti skapast tækifæri til að afla grunnþekkingar, treysta aðferðafræðilegan grunn rannsóknanna og opna möguleika til fleiri rannsóknarstarfa innan ferðamálafræða
- Von um að þessar rannsóknir, og vonandi kynning á þeim og umræða um þær niðurstöður sem af þeim hafa orðið, geti orðið til þess að auka almenna þekkingu og skilning á drifkröftum innan þróunar ferðaþjónustunnar og á þolmarkahugtakinu sjálfu.
Þolmörk ekki ein tala
„Eitt af því sem ég myndi vilja sjá er vaxandi skilningur á því að þolmörk innan ferðaþjónustunnar eða á áfangastöðum ferðaþjónustunnar eru ekki einhver ein tala og rannsóknir á sviði þolmarka beinast ekki að því að finna þessa tölu,“ sagði Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri meðal annars í inngangserindi ráðstefnunnar.
Margslungið hugtak
Ólöf bætti því við að hún sé gjarnan spurð: „Hver eru þolmörkin?- Hversu margir?“ Slíkum spurningum sé ekki hægt að svara. „Þolmörk eru margslungið hugtak margslungið, byggir á mörgum þáttum, svo sem framboði þjónustu, skipulagsmálum, aðgerðum á sviði uppbyggingar og náttúruverndar. En ekki síst framtíðarsýn okkar sem höndlum með atvinnugreinina, samfélagið og ferðamannastaðinna,“ sagði Ólöf Ýrr.
Til áréttingar varpaði hún fram nokkrum spurningum, þ.e. í grunnin:
- Hvað viljum við sem gestgjafaþjóð?
- Hvaða mörk viðjum við setja?
- Hvernig viljum við tryggja að þau sem heimsækja okkur, og þau sem við sækjumst eftir því að heimsæki okkur á þeim forsendum sem við höfum skilgreint, fái þær væntingar sem við höfum skapað uppfylltar?
Mikilvægur grunnur að stefnumarkandi aðalskipulagsvinnu
Ólöf benti á að þannig megi í raun segja að vandaðar þolmarkarannsóknir geti verið mikilvægur grunnur að stefnumarkandi aðalskipulagsvinnu hjá sveitarfélögum. Einnig og ekki síður því metnaðarfulla verkefni sem skilgreint er í Vegvísi fyrir ferðaþjónustuna, að gera stefnumarkandi stjórnunaráætlanir (e. destination management plan) fyrir landshlutana, þannig að til verði ábyggileg, hlutlæg og metnaðarfull framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustuna út um allt land.
Hvað var rannsakað?
Þolmarkarannsóknum innan ferðamála er gjarnan skipt í fjögur svið: ferðamenn, heimamenn, umhverfi og þjónustan sjálf, en þær rannsóknir sem fóru af stað á grunni þessa framtaks tengdust þremur fyrrnefndu sviðunum.
- Verkefni sem snýr að átta vinsælum ferðamannastöðum á Suður- og Vesturlandi. Annars vegar var að rannsaka þolmörk ferðamanna á áfangastöðunum og hins vegar að meta fjölda ferðamanna sem þangað koma.
- Félagsleg áhrif ferðamennsku og ferðaþjónustu þar sem gerð var rannsókn á félagslegum þolmörkum og viðhorfum heimafólks til ferðaþjónustu.
- Nokkur afmörkuð rannsóknarverkefni um umhverfisáhrif ferðamanna og ferðamennsku.