Þolmörk ferðamennsku í þjóðgarðinum í Skaftafelli
Ferðamálaráð Íslands hefur látið gera rannsókn á þolmörkum ferðamennsku á fimm vinsælum ferðamannastöðum með það að markmiði að bæta aðgengi fyrir ferðamenn, vernda landið og uppfylla væntingar ferðamanna, íslenskra sem erlendra. Staðirnir eru þjóðgarðurinn í Skaftafelli, Lónsöræfi, Landmannalaugar, Mývatnssveit og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri með stuðningi frá Rannís.
Þolmörk ferðamennsku eru skilgreind sem sá hámarksfjöldi ferðamanna sem getur ferðast um svæði án þess að það leiði af sér óviðunandi hnignun á umhverfinu eða upplifun ferðamanna og íbúa svæðisins.
Úrvinnslu rannsóknarinnar á þolmörkum þjóðgarðarins í Skaftafelli er lokið en árið 2000 voru gestir þjóðgarðarins 147.000. Þar af voru erlendir ferðamenn 106.000 eða 62% erlendra ferðamanna sem komu til landsins á tímabilinu maí til september þetta ár. 80% gestanna voru ánægðir með dvölina og sögðu náttúrlegt umhverfi Skaftafells hafa staðist væntingar þeirra. Þjóðgarðurinn virðist höfða til ólíkra hópa, jafnt þeirra sem sækjast eftir gönguferðum í óspilltri náttúru, sem og þeirra sem kjósa að slappa af við leik og störf í grennd við tjaldstæðið og þjónustumiðstöðina. Fjórðungi ferðamanna fannst helst til mikið um ferðamenn á þessum ferðamannastað.Viðhorf heimamanna til ferðamennskunnar var jákvætt, einkum með tilliti til jákvæðra efnahagslegra áhrifa.
Rannsóknin leiddi í ljós að hluti stígakerfis þjóðgarðsins er í afturför og þarf því meira viðhald en verið hefur. Gróðurlendur þola umferð misjafnlega vel, unnt verður að taka tillit til þess við stígalagningar í framtíðinni.
Rannsóknir sem þessar eru nauðsynlegar til þess að viðhalda og byggja upp eðlilega og nauðsynlega þjónustu á íslenskum ferðamannastöðum, til þess að verja náttúruna og stuðla að eðlilegri þróun og uppbyggingu ferðaþjónustu á landinu en ekki síst til þess að bregðast við og auka þolmörk ferðamannastaða, þar sem það er hægt, t.d. með aukinni stígagerð, bættum samgöngum og fleiru.
Þolmörk ferðamannastaða-Skaftafell (pdf-3,3 Mb.)