Þolmörk ferðamennsku: Samanburður á upplifun ferðamanna í Landmannalaugum og Lónsöræfum
Í dag kl. 17:15 mun Anna Dóra Sæþórsdóttir, lektor við jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands, halda erindi sem hún nefnir "Þolmörk ferðamennsku: Samanburður á upplifun ferðamanna í Landmannalaugum og Lónsöræfum." Erindið er haldið í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, í stofu 132 og er á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags.
Hugtakið þolmörk ferðamennsku hefur verið notað í rannsóknum á áhrifum ferðamennsku á umhverfi og samfélag. Í rannsóknum á þolmörkum er metinn sá fjöldi gesta sem svæði getur tekið á móti áður en neikvæðra áhrifa fer að gæta, hvort heldur sem er á náttúrulegt umhverfi eða upplifun ferðamanna.
Í erindinu verður sagt frá niðurstöðum rannsóknar á þeim hluta þolmarka sem snýr að upplifun ferðamanna. Notast var við spurningalista, dagbækur og viðtöl. Bornar verða saman niðurstöður annars vegar frá Landmannalaugum, vinsælasta áfangastað öræfanna og hins vegar Lónsöræfum en þangað koma tiltölulega fáir gestir.
Það var sem kunnugt er Ferðmálaráð í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands sem lét gera á þolmörkum ferðamennsku í Landmannalaugum og Lónsöræfum og þremur öðrum vinsælum ferðamannastöðum.