Þrjú flugfélög í ferðum allt árið
Um þessar mundir bjóðast fleiri valkostur í flugsamgöngum til og frá landinu en oftast áður. Í sumar lítur út fyrir að hér verði í ferðum þrjú flugfélög sem eru með áætlunarflug allt árið á stefnuskrá sinni og a.m.k. 5 til viðbótar sem halda upp áætlun yfir sumartímann.
Icelandair langstærst
Icelandair bera höfðuð og herðar yfir aðra, bæði hvað varðar tíðni og fjölda áfangastaða en ekki færri en 15 borgir erlendis eru á flugáætlun félagsins í sumar, til og frá Keflavík. Þetta eru Amsterdam, Baltimor, Barcelona, Boston, Frankfurt, Glasgow, Kaupmannahöfn , London, Milano, Minneapolis, New York, Osló, París, Stokkhólmur og Wasington. Tíðastar eru ferðir til Kaupmannahafnar, allt að 14 sinnum í viku og til London, allt að 10 sinnum í viku. Ekki er flogið sjaldnar en tvisvar í viku til neins áfangastaðar.
Önnur flugfélög sem bjóða upp á áætlunarflug allt árið eru annars vegar Iceland Express, sem flýgur daglega á milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar og Keflavíkur og London, og hins vegar Grænlandsflug sem innan tíðar hefur flug á milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Flogið verður tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum.
Góðar flugsamgöngur við Evrópu
Akureyri er þó ekki eini flugvöllurinn sem nýtur beinna samgangna við útlönd því líkt og í fyrra mun LTU halda uppi flugi á milli Dusseldorf og Egilsstaða í sumar, með millilendingu í Keflavík. Félagið hefur haldið uppi áætlunarflugi hingað til lands yfir sumartímann frá árinu 1995 í samvinnu við ferðaskrifstofuna Terra-Nova Sól. Áætlun LTU í sumar gerir annars ráð fyrir flugi tvisvar í viku á milli Munchen og Keflavíkur og þrisvar á milli Dusseldorf og Keflavíkur, að Egilsstaðafluginu meðtöldu. Terra-Nova Sól er einnig með umboð fyrir fleiri flugfélög og í sumar býður félagið samtals upp á 15 flug í viku til 8 mismunandi staða í Evrópu. Auk áætlunar LTU er um að ræða þýska flugfélagið Aero Lloyd sem flýgur vikulega til og frá Vín, Berlín, Frankfurt og München, þýska flugfélagið Condor sem flýgur einu sinni í viku til og frá Frankfurt og Munchen, franska flugfélagið Corsair sem flýgur tvisvar í viku til og frá Paríasr og loks Futura Airlines sem flýgur vikulega til og frá Barcelona í samvinnu við Heimsferðir og Terra-Nova Sól.
Hér hafa verið nefnd flugfélög sem telja má að séu með áætlunarferðir en hægt væri að bæta við þennan lista ef leiguflug í tengslum við sólarlandaferðir, borgarferðir og ýmsar sérferðir væru talin með.