Þróunarsjóður Landsbankans og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins úthlutar 31,1 milljón króna
Tólf styrkir voru veittir úr Þróunarsjóði ferðamála í gær, 10. desember, samtals 31,1 milljón króna, en að sjóðnum standa atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og Landsbankinn .
Þetta var önnur úthlutun úr sjóðnum og bárust honum 56 umsóknir að þessu sinni. Í fyrri úthlutun voru veittar 38,9 milljónir króna til 20 verkefna.
Þróunarsjóðurinn var stofnaður í tengslum við verkefnið Ísland allt árið. Markmið sjóðsins er að lengja ferðamannatímann á Íslandi, með því að efla starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu utan háannatíma og auka á þann hátt arðsemi þeirra. Stofnendur sjóðsins lögðu fram 70 milljónir í upphafi, 40 milljónir komu frá Landsbankanum og 30 milljónir frá atvinnuvegaráðuneyti sem úthlutað skyldi í tveimur úthlutunum. Ákveðið hefur verið að framlengja starfsemi Þróunarsjóðsins og verða á næsta ári veittar 35 milljónir króna úr honum.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segir:
„Samhliða markaðsátakinu Ísland allt árið hefur skilningur aukist á nauðsyn þess að mæta auknum kröfum um afþreyingu fyrir ferðamenn utan háannatíma og á landinu öllu. Stuðningur Landsbankans og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins til nýrra verkefna á þessu sviði er ferðaþjónustunni mjög mikilvægur. Hann gerir kleift að byggja upp þjónustu sem laðar að gesti á öllum árstímum og það fyrirkomulag er grundvöllur undir framtíðarrekstur öflugrar atvinnugreinar.“
Steinþór Pálsson bankastjóri segir:
„Landsbankinn hefur lagt sérstaka áherslu á að styðja við uppbyggingu í ferðaþjónustu á undangengnum árum og fjármagnað verkefni á því sviði um allt land. Samstarf bankans við forsvarsmenn verkefnisins Ísland allt árið hefur verið árangursríkt og það er trú okkar að styrkir sem þessir efli ferðaþjónustu enn frekar. Við óskum styrkþegum til hamingju og vonum að hugmyndir þeirra nái fram að ganga.“
Í úthlutunarnefnd voru Davíð Björnsson, Finnur Sveinsson og Guðný Erla Guðnadóttir starfsmenn Landsbankans, Ásborg Arnþórsdóttir sem skipuð var af atvinnuvegaráðherra, Einar Karl Haraldsson, stjórnarformaður verkefnisins Ísland allt árið, Sigríður Ó. Kristjánsdóttir frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri. Formaður dómnefndar var Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Landsbankanum.
Þróunarsjóðnum er ætlað að styðja við samstarfsverkefni fyrirtækja sem lengt geta ferðamannatíma á tilteknum svæðum eða afbragðsverkefni stakra fyrirtækja undir sömu formerkjum. Hvatt er til samstarfs skapandi greina við fyrirtæki í ferðaþjónustu. Sjóðurinn styrkir einkum verkefnisstjórn, greiningarvinnu, undirbúning verkefna, kaup á ráðgjöf og þróun hugmynda en einnig önnur verkefni sem stuðlað geta að lengingu ferðamannatímans. Styrkir sjóðsins geta að hámarki numið 50% af heildarkostnaði verkefnis.
Eftirtaldir hlutu styrki úr Þróunarsjóði að þessu sinni:
- Norðurhjari – Uppbygging ferðaþjónustu frá Kelduhverfi að Bakkafirði – 5.000.000 kr.
Til að vinna að gerð áætlunar um uppbyggingu á völdum ferðamannastöðum á svæðinu frá Kelduhverfi að Bakkafirði, skipulagi þeirra og merkingum. Greind verða tækifæri í ferðaþjónustu á haustin og vorin, m.a. í veiðiferðamennsku og menntatengdri ferðaþjónustu. - South Iceland Adventure – Miðgarður – 4.000.000 kr.
Til að efla ferðamennsku á Suðurlandi vetrarmánuði ársins með verkefninu Miðgarður - eða Project Midgard – en markmið þess er að nýta ferðamannasvæði sem býður upp á íslenska vetrarupplifun með ævintýraferðum. - Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja – Jarðvarmavangur á Reykjanesi – 3.450.000 kr.
Til að vinna að uppbyggingu jarðvarmavangs á Reykjanesi með það að markmiði að auka vöruframboð fyrir ferðamenn á svæðinu á jaðartímum. Með því móti má auka framlegð atvinnugreinarinnar í samvinnu fyrirtækja, menntastofnana og opinberra aðila í samstarfi við Geo Camp Iceland. - Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða – Vatnavinir Vestfjarða – 3.000.000 kr.
Til að finna leiðir til að nýta haf, vatn, jarðvarma og náttúru svæðisins til atvinnusköpunar í ferðamennsku á umhverfisvænan hátt. Markmiðið er að lengja ferðatímabil á svæðinu og dvalartíma ferðamanna. - Fisherman ehf. – Matarferð í sjávarþorp – 3.000.000 kr.
Til að undirbúa/skipuleggja matarferðir til Suðureyrar þar sem farið er í tveggja tíma söguferð um vistvænt sjávarþorp, þar sem stoppað er á mismunandi stöðum í þorpinu til að smakka á framleiðsluafurðum heimamanna. - Harald Jóhannesson – Fuglaskoðunarferðir á Norðausturlandi – 3.000.000 kr.
Til að skipuleggja fugla- og náttúruskoðunarferða fyrir erlenda ferðamenn og þróa markaðsefni fyrir þær hérlendis og erlendis. - Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar – Ísland, áfangastaður listamanna – 3.000.000 kr.
Til að gera Ísland að áfangastað alþjóðlegra listamanna og listaverkasafnara á þeim tíma þegar mest er um að vera í myndlistarlífi landsins frá september til maí á ári hverju. - Westfjords Adventures – Þróun ævintýraferða á Vestfjörðum – 1.900.000 kr.
Til að stofna afþreyingarfyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum og bjóða upp á ævintýraferðir á svæðinu. Fyrirtækið mun starfa allt árið og vera leiðandi í þróun svæðisins sem vetraráfangastaðar. - Mývatnsstofa ehf. – Orka vetrarins – 1.800.000 kr.
Mývatnsstofa og Húsavíkurstofa er samstarfsvettvangur aðila í verslun og ferðaþjónustu á Norðausturlandi. Félögin koma að ýmsum viðburðum en þeirra á meðal er Orkugangan, "Hestar á ís" og "Mývatnsmaraþon". - Magnús Freyr Ólafsson – Vitinn lýsir leið – 1.000.000 kr.
Til að vinna að skipulagningu heimsókna ferðamanna í stóra vitann á Breið á Akranesi sem býður upp á einstakt útsýni og tækifæri til ljósmyndunar. - Skjaldarvík ferðaþjónusta – Jólaævintýri – 1.000.000 kr.
Til að skipuleggja námskeið og kvöldverði þar sem íslenskar jólahefðir eru kynntar fyrir ferðamönnum og þá sér í lagi laufabrauðsgerð og matarhefð á jólum. - Snæland Grímsson – Heilsueflandi ferðir – 950.000 kr.
Til að finna leiðir til að markaðssetja eiginleika íslenska vatnsins og nýta fjárfestingu betur í heilsueflandi ferðir yfir vetrarmánuðina, svokallaða wellness-ferðamennsku.
Styrkþegar úr Þróunarsjóði Landsbankans og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis við úthlutun í Iðnó í gær. Með þeim á myndinni eru Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Steinþór Pálsson bankastjóri.