Þurfum að þróa þjónustu okkar að þörfum nýs markaðar
Eins og komið hefur fram í fréttum hér á vefnum fór Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ásamt fylgdarliði í opinbera heimsókn til Kína fyrir stuttu. Magnús Oddsson ferðamálastjóri var einn þeirra sem var í fyldarliði ráðherrans í þessari átta daga ferð um Kína.
?Við fengum tækifæri til að heimsækja þrjár gjörólikar borgir í Kína þ.e. Peking, Kunming og loks Shanghaj þannig að við sáum miklar andstæður og áttum fundi með aðilum í ferðaþjónustu á svæðunum auk þess em fundur var með ferðamálayfirvöldum Kína,? segir Magnús. Hann segir ljóst að þessi risamarkaður sé að byrja að hreyfast og því miklir möguleikar þar fólgnir. Þá sé ekki síður athyglisvert hve áhugi ferðaþjónustuaðila og yfirvalda sé mikill á frekari samskiptum við Ísland.
Asía verður fimmta áherlsusvæði ferðaþjónustunnar
?Í fyrra var gerður svokallaður ADS samningur við Kína sem gerir alla sölu hópferða frá Kína til Íslands auðveldari. Í kjölfarið höfum við nú í tvö ár tekið þátt í stærstu ferðasýningu Asíu sem haldin er árlega í Kína. Við heimsóttum hana nú í ferðinni í Kunming. Við verðum að gera okkur ljóst að það er mikið starf fyrir höndum bæði hvað varðar að læra á dreiflleiðir og byggja upp söluleiðir í þessu stóra landi, en ekki síður að laga móttökuþátt okkar að þörfum þessa nýja markaðar. Við höfum þróað þjónstuþætti okkar í samræmi við þarfir helstu markaðssvæða Íslands en hér er þörf fyrir allt annars konar þjónustu að ýmsu leyti. Íslensk ferðaþjónusta hefur verið með aðaláherslu á fjögur meginmarkaðssvæði undanfarna áratugi, þ.e. N- Ameríku, Bretland, Norðulönd og meginland Evrópu. Nú hlýtur á næstu árum Asía með sérstaka áherslu á Kína að verða fimmta áherlsusvæði ferðaþjónustunnar,? segir Magnús.
Hann minnir jafnframt á að það sé mikil vinna framundan í báðum þessum þáttum, þ.e. markaðs- og söluþættinum og í að þróa móttökuþáttinn og breyta honum. Að hans mati sé það líklega stærra verkefni en hann hafi talið áður en farið var í þessa ferð.
Mynd: Frá Shanghaj.