Tjaldsvæði geta sótt um stjörnuflokkun Vakans
Viðmið í Vakanum fyrir tjaldsvæði eru tilbúin og samþykkt af stýrihóp Vakans. Um er að ræða sjöttu viðmiðin í gistihlutanum. Þetta er jafnframt ákveðinn lokaáfangi gæða- og umhverfiskerfisins því þar með eru öll viðmið sem lagt var upp með í upphafi tilbúin og orðin opinber.
Með tilkomu þessara nýjust viðmiða geta tjaldsvæði sótt um að gerast þátttakaendur í Vakanum og fengið stjörnuflokkun. Hin gistiviðmiðin fimm taka til hótela, gistiheimila, heimagistingar, hostela og orlofshúsa og íbúða.
Hinn hluti Vakans eru svo gæðaviðmið sem taka til annarrar starfsemi í ferðaþjónustu en gistingar og er þar um að ræða 24 mismunandi flokka þjónustu. Þessu til viðbótar geta svo þeir sem taka þátt í Vakanum einnig valið að vera með í umhverfishluta kerfisins, sér að kostnaðarlausu.