Tölur um fjölda og skiptingu farþega með Norrænu
Austfar, umboðsaðili ferjunnar Norrænu, hefur tekið saman tölur um fjölda farþega á síðasta ári og skiptingu þeirra eftir þjóðerni. Jafnframt fylgir samanburður við árið 2002. Þessar tölur eru gagnleg viðbót við talningu Ferðamálaráðs á farþegum sem fara um Leifsstöð.
Ný Norræna hóf sem kunnugt er siglingar síðastliðið vor. Samkvæmt tölum Austfars fjölgaði farþegum til Íslands með ferjunni um 24% á milli áranna 2002 og 2003, fóru úr 8.711 í 10.781. Íslendingum fjölgaði um 58% en erlendum gestum um 15%. Af einstökum þjóðum munar mest um aukningu Norðmanna, Íslendinga og Færeyinga. Þjóðverjar voru sem fyrr fjölmennasti hópurinn en þeim fækkar þó örlítið á milli ára. Nánari upplýsingar um samsetningu farþega Norrænu eftir þjóðerni má fá með því að smella hér, (Excel-skjal).
Einnig hefur verið útbúið skjal þar sem samanlagður farþegafjöldi um Leifsstöð og með Norrænu er borinn saman á milli ára. Sjá hér, (Excel-skjal).