Tvær nýjar skýrslur um þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustuna
Tvær nýjar skýrslur ráðgjafarfyrirtækisins Hagrannsókna sf. um uppbyggingu þjóðhagslíkans fyrir ferðaþjónustuna eru komnar hér á vefinn.
Skýrslurnar lýsa líkaninu ítarlega, setja það fram á tölvutæku formi og fjalla um tengingu þess við þjóðhagslíkan Hagstofu Íslands. Sú tenging er lykilatriði til að hið nýja líkan nýtist til greiningar á áhrifum aðgerða eða ytri breytinga í ferðaþjónustunni á greinina og hagkerfið í heild - og öfugt. Meðal áhugaverðra greininga má nefna mat áframlagi ferðaþjónustu til þjóðarbúskaparins, áhrifum gengisbreytinga á ferðaþjónustuna, áhrifum ytri áfalla í ferðaþjónustunni á þjóðarbúskapinn og áhrif skattabreytinga á greinina og þjóðarbúskapinn.
Hagrannsóknir sf. smíða á vegum Ferðamálastofu nýtt þjóðhagslíkan (geiralíkan) fyrir innlenda ferðaþjónustu, sem á að vera fullbúið í notendavænu viðmóti og tengt við almennt þjóðhagslíkan Hagstofu Íslands áramótin 2023/24.
Skýrslurnar tvær má nálgast hér að neðan en fyrri skýrslur og nánari upplýsingar eru á vefsvæði verkefnisins.