Tvöföldun á flugferðum easyJet til Íslands
Breska flugfélagið easyJet mun rúmlega tvöfalda fjölda flugferða sinna til Íslands á næstunni. Félagið býst við að flytja um fjögur hundruð þúsund farþega til og frá landinu á næsta ári.
Genf og Belfast nýir áfangastaðir
Flugfélagið hyggst hefja beint áætlunarflug frá Íslandi til Gatwick-flugvallar í London, Genfar í Sviss og Belfast á Norður-Írlandi, allt árið um kring. Til viðbótar flýgur félagið til fimm áfangastaða í dag og verða þeir því orðnir samtals átta með fjölguninni. Flugið til Gatwick og Genfar hefst í lok október og til Belfast í desember.
Úr 52 ferðum í 110 á mánuði
Fyrir flýgur félagið til London Luton, Bristol, Manchester, Edinborgar í Skotlandi og Basel í Sviss. EasyJet hóf að fljúga héðan árið 2012 til Lundúna en alls eru nú floginn 13 flug á viku eða 52 flug á mánuði. Þegar Belfast flugið fer af stað í desember verða mánaðarlegar brottfarir félagsins 100 talsins. Frá og með febrúar næstkomandi eykst tíðnin til London Luton og Manchester og þá verða brottfarir easyJet frá Íslandi orðnar 110 í hverjum mánuði, segir í frétt frá easyJet.