Tvö ný í Vakanum
Tvö fyrirtæki hafa bæst við í Vakanum síðustu daga. Þetta eru ferðaskrifstofurnar Iceland Travel og Tripcreator.
Ferðaskrifstofan Iceland Travel er dótturfélag Icelandair Group og byggð á traustum grunni sem á rætur að rekja allt til ársins 1937. Fyrirtækið er stolt af þeim mannauð sem það býr yfir en það eru rúmlega 150 starfsmenn af 12 mismunandi þjóðernum. Þjónusta Iceland Travel er mjög fjölbreytt og snýr að einstaklingum, hópum, ráðstefnum, hvatahópum skipafarþegum og viðburðaþjónustu. Nýjasta viðbótin er Nine Worlds sem sérhæfir sig í þjónustu við farþega sem vilja hærra þjónustustig. Fyrirtækinu er mikið í mun að sinna öryggis- og umhverfismálum vel, hefur uppfyllt flest skilyrði fyrir umhverfisstaðalinn ISO14001 og gerir ráð fyrir að fá vottun með haustinu.
Við hjá Vakanum er afar ánægð að fá þetta öfluga fyrirtæki til liðs við okkur og óskum þeim innilega til hamingju með glæsilegan árangur. Á myndinni eru: Hjörvar Sæberg Högnason, Berglaug Skúladóttir, Bára Jóhannsdóttir, Áslaug Briem frá Vakanum og Hörður Gunnarsson.
Ferðaskrifstofan TripCreator er auk viðurkenningar Vakans með bronsmerki í umhverfiskerfinu. Ferðaskrifstofan á og rekur vefinn tripcreator.com, sem hefur skapað sér sérstöðu á markaðinum. Þetta er alíslensk hugmynd sem kviknaði hjá stofnendum fyrirtækisins fyrir nokkrum árum síðan og er gott dæmi um íslenskt hugvit og drifkraft. Nokkrir einstaklingar sem voru að pæla á svipuðum nótum komu svo að hugmyndinni á seinni stigum, segir Ólafur Hilmarsson einn af stofnendum félagsins. Þetta er ný nálgun á skipulagningu ferða og öðruvísi ferðaskrifstofa en við eigum að venjast. Ekki eru seldar fyrirfram ákveðnar ferðir heldur getur fólk farið inn á síðuna, skipulagt og sérsniðið ferð eftir sínum þörfum og þrám með hjálp þeirrar tækni sem TripCreator byggir á. TripCreator hóf starfsemi sína árið 2013, en hjá því starfa nú tíu starfsmenn og eru höfuðstöðvar þess á Íslandi en einnig er rekin þróunardeild í Litháen. Á myndinn má sjá Hilmar Halldórsson og Ólaf Hilmarsson hjá TripCreator.