Um 9.000 gestir á tveimur dögum
Mikil umferð skemmtiferðaskipa hefur verið undanfarna daga. Í gær lágu þrjú skip í Reykjavíkurhöfn og í dag voru þrjú skip samtímis á Pollinum á Akureyri, þar af tvö þau sömu og í Reykjavík. Í dag eru tvö skip í Reykjavíkurhöfn og þau verða bæði á Akureyri á morgun. Þá hefur eitt þessara sex skipa viðkomu á Ísafirði á morgun.
Samtals eru um 6000 farþegar með þessum sex skipum sem hafa viðkomu í Reykjavík, Akureyri, Ísafirði eða öllum stöðum. Miðað við að einn áhafnarmeðlimur sé fyrir hverja tvo farþega má reika með að um 9.000 gestir hafi komið með skemmtiferðaskipum til landsins þessa tvo daga.
Annríki hjá rútufyrirtækjum
Í dag voru það skipin Deutschland, Discovery og Astoria sem heiðruðu Eyfirðinga með nærveru sinni og voru um 1.700 gestir með þeim. Tvö þeirra voru í Reykjavík í gær ásamt skipinu Costa Allegra með um 500 farþega. Tvö skip af stærri gerðinni eru hins vegar í Reykjavík í dag og fara norður á morgun, Sea Princess og Aurora, sem hvort um sig eru um 77.000 brúttutonn og rúma samtals um 3.800 gesti. Stór hluti farþeganna fer í skoðunarferðir með rútum og því er mikið annríki á þeim vettvangi einnig.
Fleiri skip og meiri dreifing farþega
Í sumar er áætlað að 69 skemmtiferðaskip leggjast að bryggju í Reykjavíkurhöfn, af öllum stærðum og gerðum, og er það aukning frá því í fyrra þegar 58 skip komu til landsins. Árið 1993 voru skipin hins vegar 22. Sama þróun hefur átt sér stað á Akureyri en þangað hafa 53 skip boðað komu sína í sumar, samanborið við 45 í fyrrasumar.
Fjölgun skemmtiferðaskipa er m.a. árangur öflugs markaðsstarfs hafna landsins og fleiri aðila og má í því sambandi nefna samtökin Cruse Iceland sem formlega voru stofnuð á síðasta ári. Þá hefur sú þróun einnig átt sér stað að skipin hafa viðkomu í fleiri höfnum hérlendis en áður var þannig að farþegar dreifast meira um landið, eru að fara í fleiri ferðir og skilja þannig meira eftir. Þá hefur færst í vöxt að farþegaskipti eigi sér stað hérlendis þannig að nýir farþegar séu að koma með flugi og aðrir að hverfa til síns heima.
Mynd: Deutschland, Discovery og Astoria á Pollinum á Akureyri í dag.
Ferðamálaráð HA