Fara í efni

Umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs 2001

Umhverfisverdlaun2001Ishesta
Umhverfisverdlaun2001Ishesta

Umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs Íslands voru veitt í sjötta sinn á Ferðamálaráðstefnunni sem haldin var á Hvolsvelli 18. - 19. okt sl. Verðlaunin að þessu sinni hlaut ferðaþjónustufyrirtækið Íshestar og veitti Einar Bollason framkvæmdastjóri fyrirtækisins þeim viðtöku úr hendi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Fram kom í máli ráðherra að Íshestar væru í fararbroddi afþreyingarfyrirtækja í umhverfismálum og að framkvæmdastjóri Íshesta er jafnframt formaður umhverfisnefndar samtaka ferðaþjónustunnar. Íshestar bjóða upp á margvíslegar ferðir jafnt styttri sem skemmri og nú hefur sú nýjung verið tekin upp að boðið er upp á svokallaðar ECO ferðir sem ekki eru hestaferðir heldur ferðir þar sem fléttað er saman fræðslu um náttúru, menningu og sögu. Íshestar hafa sett sér umhverfisstefnu og frætt sitt starfsfólk um hvernig ná má markmiði þeirrar stefnu. Þá hefur fyrirtækið átt gott samstarf við Náttúruvernd ríkisins og Landgræðsluna og fylgt leiðbeiningum þessara stofnana í hvívetna við skipulagningu ferða. Fyrirtækið Íshestar er því vel að heiðrinum komið.

Myndatexti:  Einar Bollason framkv.stj. Íshesta, Bryndís Einarsdóttir aðst.framkv.stj. og Sigrún Ingólfsdóttir fjármálastj.