Fara í efni

Umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

innanlandskönnun9
innanlandskönnun9

Í  liðinni viku rann út umsóknarfrestur fyrir styrki í næstu úthlutun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Alls bárust um 90 umsóknir frá tæplega 60 aðilum en eftir er að fara yfir og taka afstöðu til þess hvort allar umsóknir uppfylli sett skilyrði. Heildarupphæð sem sótt er um er vel á fjórða hundrað milljónir króna en í fjárlagafrumvarpi næsta árs kemur fram að hlutur sjóðsins af gistináttagjaldi er áætlaður um 75 milljónir króna.

Að sögn Sveins Rúnars Traustasonar, umhverfisstjóra Ferðamálastofu og starfsmanns sjóðsins, er enn of snemmt að spá fyrir um hvenær niðurstaða stjórnar sjóðsins varðandi úthlutun liggur fyrir en framundan er mikil vinna við yfirferð umsókna.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er vistaður hjá Ferðamálastofu. Samkvæmt lögum nr. 75/2011 um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Þá skal með fjármagni úr sjóðnum leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.

Stjórn sjóðsins skipa

  • Albína Thordarson arkitekt, formaður
  • Sævar Skaptason, fulltrúi SAF
  • Anna G. Sverrisd, fulltrúi SAF
  • Guðjón Bragason, Samb. Íslenskra Sveitarfélaga

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri Ferðamálastofu í síma 535-5500 eða með tölvupósti sveinn@ferdamalastofa.is 

Nánar um Framkvæmdasjóð ferðamananstaða

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson, arctic-images.com