Unnið að þarfagreiningu vegna rannsókna í ferðaþjónustu
Eitt þeirra fjölmörgu verkefna sem nú eru í vinnslu í Ferðamálastofu í samræmi við Ferðamálaáætlun 2006-2015 er þarfagreining vegna nauðsynlegra rannsókna í ferðaþjónustu. Gerður var samningur við Gallup (nú Capacent) um framkvæmd þarfagreiningarinnar en öll samræming og vinna af hálfu stofnunarinnar er í höndum Oddnýjar Óladóttur verkefnastjóra.
Hluti verkefnisins er unnin með svokölluðum rýnihópum. Verða þeir fjórir, þrír þeirra koma saman í Reykjavík og einn á Akureyri. Alls taka um 50 manns þátt í umræddri vinnu. Koma þeir úr flestum þáttum ferðaþjónustunnar, svo og frá háskólum, stofnunum, sveitarfélögum og í reynd frá nær öllum þeim sem talist geta hagsmunaaðilar þegar kemur að rannsóknum í ferðaþjónustu. Rýnihóparnir halda fundi sína nú 18.-20. september. Gert er ráð fyrir að niðurstöður úr þessari þarfagreiningu, og þá hverjar eru nauðsynlegar rannsóknir í ferðaþjónustu næstu árin, liggi fyrir í nóvember.