Upplýsingar um réttindi ferðafólks vegna COVID-19
28.02.2020
Hverir við Námaskarð.
Ertu á leið í ferðalag eða að velta því fyrir þér að fara í ferðalag og ert óviss um réttindi þín vegna Covid-19 veirunnar? Hér að neðan nokkrar upplýsingar sem Ferðamálastofa hefur tekið saman.
Kaup á pakkaferð
- Ferð afpöntuð:
Ef þú hefur keypt pakkaferð áttu alltaf rétt á að afpanta pakkaferð, hvenær sem er áður en ferð er farin. Seljandi pakkaferðarinnar á þó rétt á að halda eftir þóknun eða staðfestingargjaldi í samræmi við skilmála ferðarinnar. Á því er undantekning ef óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður eru á ferðastað eða í næsta nágrenni. Óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður geta t.d. verið útbreiðsla farsótta eða sjúkdóma sem hafa afgerandi áhrif á ferðalög til viðkomandi staða. Í þeim tilvikum á ferðamaður rétt á að fá fulla endurgreiðslu. Þessar aðstæður þarf að meta í hverju tilviki út frá aðstæðum á ferðastað. Ferðaskrifstofu ber að endurgreiða verð ferðarinnar innan 14 daga frá afpöntun. Leiða má að því líkur að ef heilbrigðisyfirvöld vara almennt við ferðalögum til viðkomandi staðar eða ef ferðabann er í gildi, sé um að ræða óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður. - Flugi aflýst:
Ef þú hefur keypt pakkaferð og ferðaskrifstofan ákveður að aflýsa pakkaferðinni þá áttu rétt á fullri endurgreiðslu. Ferðaskrifstofunni ber að endurgreiða verð ferðarinnar innan 14 daga frá aflýsingu ferðarinnar. - Neytendastofa hefur eftirlit með ákvæðum pakkaferðalaga sem snúa að afpöntun og aflýsingu pakkaferðar. Nánari upplýsingar veitir Neytendastofa í síma 510-1100. Upplýsingar má einnig finna á vef Neytendastofu.
Eingöngu flug
- Flugi aflýst:
Ef þú hefur eingöngu keypt flug og flugfélagið aflýsir fluginu þá áttu rétt á endurgreiðslu frá flugfélaginu. - Flug afpantað:
Ef þú vilt hætta við ferðina og afpantar flugmiða sem þú varst búinn að kaupa þá áttu ekki rétt á endurgreiðslu frá flugfélaginu nema annað komi fram í skilmálum flugfélagsins. Þú átt hins vegar alltaf rétt á endurgreiðslu á sköttum og gjöldum sem þú greiddir sem voru hluti af heildarverði flugsins. - Nánari upplýsingar um réttindi flugfarþega veitir Samgöngustofa í síma 480-6000. Upplýsingar um réttindi flugfarþega má einnig finna á vef Samgöngustofu.
Gisting
- Ef þú hefur keypt gistingu sem samkvæmt skilmálum er óendurgreiðanleg þá áttu ekki rétt á endurgreiðslu frá gististaðnum.
Tryggingarfélög
- Á vefsíðum einhverra tryggingafélaga hafa verið teknar saman helstu upplýsingar um ferðatryggingar og Covid-19 veiruna. Hverjum og einum er ráðlagt að hafa samband við sitt tryggingarfélag og athuga rétt sinn þar sem skilmálar eru mismunandi.
Fólk er hvatt til að gæta fyllstu varúðarráðstafana. Á vef landlækins má finna upplýsingar um ráðleggingar til ferðamanna.