Uppsveitabrosið 2008
Uppsveitabrosið var nýlega afhent í fimmta sinn. Að þessu sinni voru það læknarnir í Laugarási, þeir Gylfi Haraldsson og Pétur Skarphéðinsson, sem hlutu brosið fyrir frábæra læknisþjónustu til þeirra 500 þúsund ferðamanna, 5 þúsund sumarhúsaeiganda og 2600 íbúa sem búa á svæðinu eða sækja það heim árlega.
Uppsveitabrosið er viðurkenning sem veitt er árlega einstaklingi eða fyrirtæki sem hafa lagt ferðaþjónustunni í uppsveitum Árnessýslu lið á jákvæðan uppbyggilegan hátt. Markmiðið er að senda út jákvæð skilaboð og vekja athygli á því sem vel er gert.
Í rökstuningi segir að þrátt fyrir að læknisþjónusta sé ekki almennt talin til ferðaþjónustu sé ljóst að tenging sé þar á milli og fleiri en íbúarnir leita til læknanna í Laugarási. Þeir ferðamenn sem hafa vegna slysa eða veikinda þurft að leita til læknanna hafa verið undrandi og þakklátir. Það er ekki sjálfgefið að hafa svo gott aðgengi að læknissþjónustu hvort sem miðað er við aðra landshluta eða önnur lönd. Læknarnir hljóta Uppsveitabrosið 2008 fyrir einstaka læknisþjónustu og góða samvinnu.
Brosinu fylgja jafnan handgerðir hlutir úr heimabyggð og að þessu sinni var það handverkskonan Helga Magnúsdóttir, í Bryðjuholti sem gerði gripina, útskornar íslenskar fornhetjur.
Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu, afhenti brosið.