Fara í efni

Vatnajökulsþjóðgarði fylgja mikil tækifæri fyrir ferðaþjónustuna

Vatnajökull
Vatnajökull

Vatnajökulsþjóðgarður, stærsti þjóðgarður Evrópu, var stofnaður við formlega athöfn síðastliðinn laugardag. Stofnhátíð var haldin á fjórum stöðum samtímis, í Gljúfrastofu í Jökulsárgljúfrum, á Skriðuklaustri í Fljótsdal, í Skaftafellsstofu í Skaftafelli og í Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri.

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri er varaformaður stjórnar hins nýja þjóðgarðs og var hún viðstödd stofnhátíðina í Jökulsárgljúfrum. Hún segir ljóst að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs marki ekki einungis tímamót í náttúruvernd heldur felist í þessu gríðarleg tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu. ?Annar megin tilgangurinn með stofnun þjóðgarðsins, þ.e. ásamt náttúruverndinni, snýr að byggðaþróun og atvinnusköpum. Sú atvinnusköpun mun ekki síst tengjast ferðaþjónustunni með einum eða öðrum hætti,? segir Ólöf Ýrr.

Hún bætir við máli sínu til stuðnings að áætlanir sem unnar hafa verið í tengslum við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs gera ráð fyrir að ferðamönnum muni fjölga um a.m.k. 7% vegna hans til ársins 2012 og viðbótargjaldeyristekjur 2020 nemi 11 milljörðum króna. Störfum í ferðaþjónustu mun fjölga um 150 á næstu fjórum árum og fjöldi starfa mun verða til innan þjóðgarðsins sjálfs.

Galdurinn er að leita jafnvægis
Í ræðu Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra kom fram að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur þegar vakið athygli og væntingar, innan lands sem utan. ?Miklar og ólíkar væntingar bera með sér talsverða ábyrgð. Ég tel að galdurinn að farsælli framtíð Vatnajökulsþjóðgarðs felist í því að leita jafnvægis. Verkefnið er að tryggja sanna og metnaðarfulla náttúruvernd sem á samleið með og leggur verðmætan grunn að atvinnuuppbyggingu og jákvæðri byggðaþróun hér í ríki Vatnajökuls. Það verkefni eigum við Íslendingar að geta leyst með sóma,? sagði ráðherra meðal annars.

Einstakur á heimsvísu
Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir um 12.000 ferkílómetra svæði eða um 12 prósent af flatarmáli landsins og er þar með stærsti þjóðgarður Evrópu. Landssvæði þjóðgarðsins er einstakt á heimsvísu. Þar er að finna síkvikt samspil jökla og eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita. Jarðfræðileg fjölbreytni er óvenjulega mikil og innan væntanlegra þjóðgarðsmarka er að finna afar sjaldgæfar landslagsheildir, m.a ósnortin víðerni.

Vatnajökulsþjóðgarður mun í fyrstu ná til alls þjóðgarðsins í Skaftafelli svo og þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum auk nánast alls Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans, að vestan, norðan, austan og sunnan. Meðal þess eru Tungnafellsjökull, Vonarskarð, Hágönguhraun og Veiðivatnahraun, vestan Vatnajökuls og Vesturöræfi, Snæfell, Eyjabakkar og hluti Hrauna, norðan Vatnajökuls. Land í Vatnajökulsþjóðgarði verður að mestu í  eigu ríkisins, en einnig munu nokkur landsvæði í einkaeigu verða hluti af þjóðgarðinum við stofnun hans. Auk þess mun stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs taka að sér í umboði Umhverfisstofnunar rekstur nokkurra friðlýstra svæða í nágrenni þjóðgarðsins, svæða sem í framtíðinni er reiknað með að verði hluti þjóðgarðsins. Gert er ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður muni stækka frekar á næstu misserum og árum. Viðræður við landeigendur og sveitarfélög um önnur landsvæði en þau sem nú er ákveðið að verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs við stofnun hafa farið fram.

Þjónustunet þjóðgarðsins
Þjónustunet þjóðgarðsins verður byggt á þremur grunneiningum. Gestastofur verða meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins. Þar verður starfsaðstaða þjóðgarðsvarða, sýningarrými þjóðgarðsins, upplýsingagjöf og fræðsla, og menningarviðburðir af ýmsu tagi. Í dag eru starfræktar gestastofur í Skaftafelli og í Ásbyrgi, og hefur í vor verið unnið að endurbótum á báðum stofum. Í framhaldi af nýyfirstaðinni arkitektasamkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands er verið að undirbúa byggingu fyrstu nýju gestastofunnar að Skriðuklaustri og munu framkvæmdir við hana hefjast í sumarlok. Áætlað er að byggðar verði þrjár gestastofur til viðbótar á næstu árum: á Kirkjubæjarklaustri, við Mývatn og í nágrenni/við Höfn í Hornafirði, þ.e.a.s. ein á hverju rekstrarsvæði þjóðgarðsins. Allar gestastofurnar munu bera ákveðið minni þjóðgarðsins.

Starfsemi og uppbygging
Í sumar verður landvörslu innan marka þjóðgarðsins og svæðum í umsjá stjórnarinnar sinnt á níu stöðum auk Skaftafells og Jökulsárgljúfra þ.e. í Herðubreiðarlindum og Öskju, Hvannalindum, Kverkfjöllum, Snæfelli, í Lóni og Lónsöræfum, við Lakagíga, frá Hrauneyjum og í Nýjadal á Sprengisandi. Um rekstur þeirra hefur stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs að mestu farið þá leið að gera þjónustusamninga við ferðafélög og aðra aðila til að nýta þá uppbyggingu og þekkingu sem fyrir er á svæðunum. Upplýsingamiðstöðvar verða í jaðri garðsins og um rekstur þeirra verða einnig gerðir þjónustusamningar við þá rekstraraðila sem þegar eru fyrir á svæðunum til að sinna upplýsingagjöf og fræðslu um þjóðgarðinn.

Fastir starfsmenn við stofnun eru þrír þjóðgarðsverðir (í Skaftafelli, Jökulsárgljúfrum og Skriðuklaustri og auk þess starfa alls fjórir sérfræðingar í Skaftafelli, Jökulsárgljúfrum og á Kirkjubæjarklaustri. Nýráðinn er einnig framkvæmdastjóri. Búið er að ráða tæplega 40 sumarstarfsmenn til landvörslu. Á árinu 2009 verða ráðnir tveir þjóðgarðsverðir til viðbótar, annar á Kirkjubæjarklaustri og hinn við Mývatn. Mikil þörf er fyrir sérfræðiþekkingu þeirra á svæðunum. Stóraukinn ferðamannastraumur kallar á sterkari innviði, aukna þjónustu og meiri fræðslu. Einnig er stefnt að aukinni landvörslu innan þjóðgarðsins. Lokið verður við uppbyggingu gestastofu á Skriðuklaustri á árinu 2009 og ráðgert er að hefja framkvæmdir við byggingu nýrrar gestastofu á Kirkjubæjarklaustri það ár. Þá verður hafinn undirbúningur að rekstri upplýsingastöðva yfir sumartímann á nokkrum stöðum og um þær gerðar þjónustusamningar við heimamenn.