Vatnajökulsþjóðgarður fær VAKANN
Vatnajökulsþjóðgarður varð í dag, fimmtudaginn 2. maí, formlega þátttakandi í VAKANUM, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar.
Fyrsta ríkisstofnunin
Þjóðgarðurinn er fyrsta ríkisstofnunin sem fær VAKANN viðurkenningu en markmið VAKANS er að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu og stuðla að samfélagslegri ábyrgð aðila innan ferðaþjónustunnar.
Tekur til margra þátta
VAKINN felur í sér viðameiri úttekt á starfsemi íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu en áður hefur þekkst hér á landi. Þeir aðilar sem óska eftir þátttöku í VAKANUM þurfa að uppfylla ýmsar kröfur um gæði þjónustunnar og öryggi, jafnt fyrir starfsfólk og viðskiptavini. Auk þess tekur kerfið m.a. til aðbúnaðar, þjónustu við ferðamenn, þjálfun starfsfólks og umgengni við náttúruna svo fátt eitt sé nefnt.
Fellur vel að markmiðum þjóðgarðsins
Vatnajökulsþjóðgarður fékk viðurkenningu í gæðakerfi VAKANS og gullmerki, hæstu mögulegu flokkun í umhverfiskerfi hans. „Viðurkenningin er mikill gæðastimpill fyrir Vanajökulsþjóðgarð og það mikla uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið að við skipulag garðsins,” sagði Kristveig Sigurðardóttir, stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs,við afhendingu VAKANS.
Kröfur VAKANS falla vel að markmiðum Vatnajökulsþjóðgarðs sem eru að vernda náttúru svæðisins, gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru, menningar og sögu, fræða um náttúru, og náttúruvernd, stuðla að rannsóknum og styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins.
Mikilvægt fyrir greinina í heild
„VAKINN er vitnisburður um fagmennsku og mikilvægt tæki til að viðhalda háu þjónustustigi í ferðaþjónustu og það er bæði ánægjulegt og mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í heild að Vatnajökulsþjóðgarður skuli hafa sóst eftir og fengið viðurkenningu VAKANS,“ sagði Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri meðal annars við afhendinguna í dag.
Fulltrúar Vatnajökulsþjóðgarðs með viðurkenningarskjal: f.v. Gróa Jónsdóttir f.h. austursvæðis; Regína
Hreinsdóttir, suðursvæði; Snorri Baldursson, vestursvæði; Kristveig Sigurðardóttir, formaður stjórnar; og Jóhanna Katrín
Þórhallsdóttir, norðursvæði.