Fara í efni

Veðurstofan þróar íslenska norðurljósaspá

Norðurljósaspá
Norðurljósaspá

Í fyrra hluta október mun Veðurstofa Íslands byrja að birta norðurljósaspár. Ferðir til að skoða þetta sérstæða fyrirbæri njóta sem kunnugt er vinsælda hjá ferðamönnum og nú verður í fyrsta sinn reynt að spá fyrir um hvar á landinu og hvenær er líklegast að til norðurljósanna sjáist.

Einstakt á heimsvísu
Á kynningarfundi um verkefnið kom fram að norðurljósaspár með þeim hætti sem Veðurstofan hefur verið að þróa eru nýlunda í heiminum. Einkum er tekið mið af þremur þáttum, þ.e. birtustigi, virkni sólgosa á tilteknum tímum og skýjahulu, en síðasttaldi þátturinn er sá sem sýnu erfiðast er að spá fyrir um. Spárnar verða birtar með myndrænum hætti þannig að auðvelt á að vera að nýta sér þær.

Unnið í góðu samstarfi
Verkefnið hefur  Veðurstofan unnið að undirlagi iðnaðarráðuneytisins og með stuðningi þess, umhverfisráðuneytis, Ferðmálastofu og Íslandsstofu. Bakgrunnur málsins er sá áhugi sem fram kom á ráðstefnu Íslandsstofu sl. haust um norðurljósin í ferðaþjónustu og þær ábendingar sem fram komu í úttekt á hugmyndinni um íslenska norðurljósaspá, sem Einar Sveinbjörnsson veðufræðingur, gerði fyrir Ísland allt árið. 

Fyrstu spár í október
Gert er ráð fyrir að byrjað verði að birta spár fyrri hluta októbermánaðar næstkomandi, gangi allt að óskum, og þær verði síðan þróaðar í ljósi reynslunnar í vetur. Spárnar birtast að sjálfsögðu á vef Veðurstofunnar www.vedur.is, bæði á íslensku og ensku.   -HA

Mynd:
Útlit og viðmót á norðurljósaspánni verður áþekkt því sem margir þekkja af spánni um skýjahulu.