Vefsíða North Hunt verkefnisins
Opnuð hefur verið vefsíða North Hunt verkefnisins. Um er að ræða alþjóðlegt verkefni til þriggja ára (2008-2010) sem gengur út á þróun sjálfbærrar skotveiðitengdrar ferðaþjónustu á jaðarsvæðum á norðurslóðum.
Íslenskir þátttakendur í North Hunt eru RHA- Rannsóknar- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, Rannsóknarmiðstöð ferðamála og Umhverfisstofnun, jafnframt vinnur félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum náið með opinberu aðilunum að verkefninu. Slóðin á nýju heimasíðuna er www.north-hunt.org
Skjóta frekari stoðum undir vaxandi atvinnugrein
Verkefninu er ætlað að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífi og skjóta frekari stoðum undir vaxandi atvinnugrein með þróun starfsumhverfis og rekstrargrundvallar fyrirtækja, eins og segir á vefnum. Lögð er áhersla á hagnýta þróun í þágu rekstrar og hvernig mynda má tengsl manna í millum sem munu efla viðskiptagrunn fyrirtækja, hvetja til þekkingar og hugmyndafærslu og þannig draga úr hindrunum sem mæta frumkvöðlum á þessu sviði. Þessi tengslanet sem mótast í verkefninu munu einnig efla umræðu og meðvitund um málefni skotveiðitengdrar ferðaþjónustu á jaðarsvæðum og þannig einnig verða frumkvöðlum til eflingar. Til að ná þessum markmiðum verður viðskiptalíkan þróað fyrir frumkvöðla í greininni og tæki þróuð til að vinna með veiðarnar á sjálfbæran hátt í samvinnu við mismunandi stofnanir og reglugerðarumhverfi. Þannig verður náms og þjálfunarefni þróað og er lokamarkmið að koma því í umferð og notkun.
Verkefnið er fjármagnað af Norðurslóðaáætlun ESB (European Commssion?s Northern Periphery Programme). Markmið Norðurslóðaáætlunar ESB eru m.a. að hvetja til nýsköpunar og aukinnar samkeppnishæfni í dreifbýli um leið og lögð er áhersla á sjálfbærni náttúru og samfélags. Þátttökuþjóðir í North Hunt eru Finnland, Svíþjóð, Ísland, Skotland og Kanada. Í öllum NPP verkefnum er krafist þess að mótframlag komi frá heimamönnum, sérstaklega frá atvinnulífinu en ekki akademískum stofnunum eða stjórnvöldum. Á þann hátt tryggir sjóðurinn aðild frumkvöðla og starfandi einkafyrirtækja að verkefnunum enda markmiðið að þróa vöru eða hugmynd sem eflir atvinnulíf á svæðunum og skilur eftir sig starfsemi sem eykur hagvöxt þeirra.
Myndin er fengin af vef North Hunt.