Vefur um reiðleiðir
Á dögunum var opnuð kynningarútgáfa af vefsíðu um reiðleiðir á Íslandi. Um er að ræða samvinnuverkefni Landssambands hestamannafélaga, Vegagerðarinnar og Landmælinga Íslands sem hafa komið sér saman um að hefja söfnun hnitsettra upplýsinga um reiðleiðir á öllu landinu og gera þau gögn aðgengileg fyrir almenning.
Landssamband hestamannafélaga sér um söfnun gagna um allt land í samvinnu við hestamenn og hestamannafélögin í landinu. Landmælingar Íslands vinna úr og koma gögnum í landfræðilegt upplýsingakerfi auk þess að setja gögnin á vefinn. Vegagerðin vinnur að stöðlun skráningaratriða og sér um að veita upplýsingar um viðurkenndar reiðleiðir.
Ætlunin er að byggja upp reiðleiðagagnasafn af öllu landinu sem birt verður á kortaskjá og að gagnasafnið innihaldi m.a. upplýsingar um vöð, brýr, reiðgöng, áningarstaði, beitarhólf, staði þar sem hægt er að fá hey á, skeiðvelli, réttir, hindranir á leið, hesthúsahverfi og vörður á reiðleiðum.
Með samstarfi þessara aðila er ætlunin að tryggja samræmd vinnubrögð, koma í veg fyrir tvíverknað og tryggja aðgang samfélagsins að því hvar á landinu er að finna reiðleiðir og í hvaða ástandi þær eru.
Útgáfan sem birtist á kortaskjá Landmælinga Íslands er kynningarútgáfa á því sem koma skal.
Nánari upplýsingar má sjá hér.