Velta í ferðaþjónustu sú sama og fyrir heimsfaraldur
Sá athyglisverði áfangi náðist mánuðina mars og apríl í ár að velta þeirra atvinnugreina sem Hagstofa Íslands flokkar saman sem einkennandi greinar ferðaþjónustu náði veltunni sömu mánuði árið 2019, síðasta ár fyrir Covid. Hagstofan notar skilgreiningu frá evrópsku hagstofunni (Eurostat) á einkennandi greinum ferðaþjónustu og upplýsingar um veltu þeirra koma úr VSK skýrslum þeirra til skattsins.
Langmesta aukningin hjá þessum greinum mældist í veitingaþjónustu eða 25% frá mars-apríl 2019. Hins vegar var samdráttur hjá hópferðafyrirtækjum um 27% yfir sama tíma. Vöxturinn í veitingageiranum var raunar að langstærstu leyti drifinn áfram af Íslendingum sem fögnuðu aflögðum hömlum og lengri dögum með því að gera vel við sig í mat og drykk. Þetta má sjá af skiptingu kortaveltu í veitingaþjónustu eftir innlendum og erlendum kortum. Íslendingar straujuðu kortin sín fyrir 39% hærri fjárhæð í mars-apríl en á sama tíma 2019 en útlend kort skiluðu 9% meiri tekjum.
Upplýsingar um ofangreint og fleira áhugavert um nýjustu veltutölur helstu atvinnugreina á Íslandi má sjá í meðfylgjandi samantekt Ferðamálastofu.