Verðlaun fyrir lokaverkefni um ferðamál
Rannsóknamiðstöð ferðamála, með fulltingi og stuðning Samtaka ferðaþjónustunnar, veitti á dögunum árleg verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin, voru afhent á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) 2012, fimmtudaginn 22. mars á hótel Hilton/Nordica í Reykjavík.
Hvað Mývetningum finnst um ferðaþjónustu
Dómnefnd, sem skipuð var stjórn og forstöðumanni RMF, mat sjö verkefni skólaársins 2011 sem þóttu afar góð og/eða mjög athygliverð. Niðurstaða dómnefndar er að verðlaunin í ár hljóti ritgerð Margrétar Hólm Valsdóttur um; Hvað Mývetningum finnst um ferðaþjónustu, frá viðskiptadeild Háskólans á Akureyrri. Á meðfylgjandi mynd eru frá vintri: Árni Gunnarsson, formaður SAF, Ragnhildur Hólm, dóttir Margrétar Hólm sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd móður sinnar í forföllum hennar og Ragnar Ólafsson, fomaður dómefndar.
Í umsögn dómnefndar segir:
Í verkefni sínu fjallaði Margrét um niðurstöður ítarlegrar viðhorfskönnunar meðal allra skráðra íbúa í Mývatnssveit. Með könnuninni fékk hún fram mat íbúanna á aðstöðu fyrir ferðafólk og hvernig staðið hefði verið að þróun og uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Þessir þættir voru svo vegnir með tilliti til þess hvort fólk hefði hagsmuna að gæta eða ekki, það er hvort svarendur, eða einhverjir þeim tengdir, hefðu tekjur af ferðaþjónustu á svæðinu.
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að íbúar líta ferðaþjónustuna og uppbyggingu henni tengdri jákvæðum augum. Hinn mikli ferðamannafjöldi sem flæðir inná svæðið ár hvert virðist ekki hafa þau neikvæðu áhrif sem ætla mætti, miðað við hve lengi ferðaþjónusta hefur verið stunduð í sveitinni. Þó er ljóst að heimafólk gerir sér einnig grein fyrir því að ferðaþjónustan er ekki gallalaus. Neikvæðir þættir eins og árstíðabundin láglaunastörf, mengun, rusl og neikvæð umhverfisáhrif eru Mývetningum ofarlega í huga. Í þessum göllum felast einnig tækifæri, tækifæri sem Mývetningar eiga kost á að nýta sér ef rétt er haldið á spöðum. Til að nýta þessi tækifæri leggur Margrét ríka áherslu á mikilvægi samvinnu ólíkra hagsmunaaðila í þróun, uppbyggingu og markaðssetningu sveitarinnar. Aðeins þannig verði hægt að gera ferðaþjónustu að öflugum heilsárvinnustað þar sem eftirsóknarvert er að starfa. Er samvinna og samstarf mikilvægt ekki síst í ljósi þess að í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram sterk vísbending um að beinir hagsmunir heimafólks hafi áhrif á viðhorf þess til ferðaþjónustu.
Dómnefndin telur að þetta verkefni sé mikilvægt innlegg í umræðu sem lengi hefur verið við líði í íslenskri ferðaþjónustu og snýr að þolmörkum umhverfis og samfélaga gagnvart ferðaþjónustu og feðramennsku. Mikilvægi þess að skoða vandlega og skilja til hlítar vísbendingar um hvort greinin sé á rangri braut í sinni uppbyggingu eða þróunarstarfi verður seint ofmetið. Jákvætt viðhorf og væntingar heimafólks um ferðaþjónustu og gestakomur eru undirstöður öflugrar vöruþróunar og þar með jákvæðrar upplifunar af áfangastað. Spurningar um hvort tilvist ferðafólks á ákveðnum stað eða uppbygging ferðaþjónustu sé ásættanleg eða óásættanleg í augum heimafólks eru mikilvægar og þeim verður að svara. Með aðferðum þolmarkarannsókna, eins og þær hafa verið þróaðar hér á landi, er reynt að setja viðmið fyrir stefnumótun í ferðaþjónustu í anda sjálfbærrar þróunar. Þegar hugtak eins og þolmörk eru til skoðunar verður ferðamannastaður aldrei burðugri en viðkvæmasti þáttur hvers staðar, hvort sem það eru innviðir, umhverfi, ferðafólk eða heimafólk sjálft. Til þess að geta staðið að stefnumótun ferðamannastaða þarf því vissulega að skoða hvern fyrir sig, en til að upplýsa stefnumótun í ferðaþjónustu í heild sinni þarf að skoða landið allt og gera sér jafnframt grein fyrir að stöðug endurskoðun er nauðsynleg sem byggir á áframhaldi rannsókna.
Verkefni Margrétar er einstaklega vandað og unnið samviskusamlega með metnað og fagmennsku að leiðarljósi. Ætti hennar vinna að verða öðrum til eftirbreytni og er hún verðugur handhafi lokaverkefnisverðlauna Rannsóknamiðstöðvar ferðamála árið 2011.
Ritgerðina er hægt að skoða á Landsbóksafni eða gegnum Skemmuna (skemman.is), hér: http://skemman.is/item/view/1946/8941
Önnur verkefni sem þóttu afar góð og/eða mjög athygliverð voru:
Verslun ferðamanna á íslenskri fatahönnun, BS ritgerð Söndru Jónsdóttur við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, ferðamálafræði. Leiðbeinandi: Dr. Katrín Anna Lund
Óáþreifanleg arfleifð í ferðaþjónustu - Nýting og miðlun þjóðsagnaarfs í Djúpavogshreppi, BS ritgerð Írisar Birgisdóttur við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, ferðamálafræði. Leiðbeinandi: Magnfríður Júlíusdóttir.
Upplifun með íslenska hestinum, BS ritgerð Þórðar Freys Gestssonar við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, ferðamálafræði. Leiðbeinandi: Dr. Anna Karlsdóttir.
Ímynd Íslands í Bandaríkjunum. Samanburður þjóðfélagshópa, MS ritgerð Aðalsteins Snorrasonar í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi: Dr. Ingjaldur Hannibalsson og Dr. Gunnar Óskarsson.
Félagsleg þolmörk heimamanna í Mývatnssveit gagnvart ferðaþjónustunni, BA ritgerð Harðar Elís Finnbogasonar frá ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Leiðbeinandi: Guðrún Þóra Gunnarsdóttir.
Markaðssetning Íslands á netinu, MS ritgerð Eyvindar Elís Albertssonar í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi: Dr. Ingjaldur Hannibalsson.