Fara í efni

Versnandi afkoma fyrirtækja í ferðaþjónustu

Versnandi afkoma fyrirtækja í ferðaþjónustu

  

Afkoma ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni versnar nokkuð milli ára. Þetta er á meðal niðurstaðna könnunar sem KPMG gerði að beiðni Ferðamálastofu um afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu. Niðurstöður voru kynntar á fundi í morgun.

Rekstrarskilyrði fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem verðleggja þjónustu sína í erlendum gjaldmiðlum, hafa breyst mikið til hins verra á síðustu árum. Gengi Evru lækkaði t.a.m. um 12,8% frá ársbyrjun 2015 til júníloka 2018 en á sama tíma hækkaði launavísitalan um 27,5%. Frá ársbyrjun 2012 til júníloka 2018 hækkaði launavísitalan um samtals 52,8% en gengi Evru lækkaði um 22,4% á sama tímabili.

Hótel

Afkoma hótela virðist versna eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu. EBIDTA framlegð fyrstu 6 mánuði 2018 var neikvæð á Suðurlandi um 1% af veltu. Hún var neikvæð um 6,1% af veltu á Vesturlandi, en á Norðurlandi var hún neikvæð um 20,4%. Virðist staðfesta þá skoðun að ferðamenn dvelji skemur á landinu, gisti á höfuðborgar-svæðinu en fari síður út á land og því minna sem fjær dregur því. Afkoma hótela á höfuðborgarsvæðinu batnaði almennt á árunum 2015-2017 og fór EBIDTA framlegð þeirra úr 6,4% á árinu 2015 í 16,9% árið 2017. Afkoma hótela á landsbyggðinni versnaði hins vegar á þessu árabili og fór EBITDA framlegð þeirra úr 6,9% í 2,2%.

Bílaleigur

Afkoma bílaleiga lækkaði verulega á milli áranna 2016 og 2017 og lækkaði hagnaður þeirra úr 6,3% af tekjum í aðeins 0,5% að meðaltali. Helstu ástæður versnandi afkomu eru hækkun launakostnaðar og aukinn fjármagnskostnaður.

Hópferðafyrirtæki

Afkoma hópbílafyrirtækja lækkaði verulega milli áranna 2015 og 2016 og koma áhrif af hækkun á gengi krónunnar greinilega fram í rekstri þeirra á sama tíma og innlendur kostnaður, eins og laun, hækkaði verulega. Sama þróun varð á árinu 2017 en þá nam tap félaga 1,7% af tekjum, en á árinu 2016 var það 0,6% af tekjum.

Verkefnið

Verkefnið var unnið af Alexander G. Eðvardssyni sem byggði vinnu sína á gögnum frá ferðaþjónustufyrirtækjum, fyrst og fremst upplýsingum úr ársreikningum 2017 og reikningsskilum fyrstu 6 mánaða ársins 2018. Óskað var upplýsinga frá ferðaþjónustufyrirtækjum um rekstur ársins 2017 og fyrstu 6 mánaða 2018. Þátttaka hótelfyrirtækja var góð. Upplýsinga um rekstur bílaleiga og hópferðafyrirtækja fyrir árin 2016 og 2017 var aflað úr ársreikningum þeirra. Einnig var haft samband við stjórnendur nokkurra fyrirtækja og aflað almennra upplýsingar um rekstur þeirra á árinu 2018.


Skýrsluna í heild sinni, ásamt glærukynningu og upptöku frá fundinum má nálgast hér að neðan: