Vestfirðingar luku HH2 námskeiði
Útflutningsráð Íslands hefur frá árinu 2004 haldið námskeið víða um land undir nafninu ?Hagvöxtur á heimaslóð?. Í vetur var boðið upp á framhaldsnámskeið, svokallað HH2, og lauk öðru námskeiði vetrarins nú í vikunni en það var haldið á Vestfjörðum.
Markmið HH2 verkefnisins er að auka markaðsvitund þátttakenda með kennslu vinnubragða í markaðssetningu og frágangi vöru á markað. Helstu einkenni og söluvörur svæðisins eru greindar og unnið að þróun hugmynda og vara sem verða til við samstarf ferðaþjónustufyrirtækjanna á svæðinu. Fyrsti vinnufundur hópsins fór fram á Ísafirði í byrjun apríl en sá seinni fór fram á Hólmavík og Hótel Djúpavík nú í vikunni. Fyrirlesarar og ráðgjafar héldu erindi og Halldór Arinbjarnarson, verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu, kynnti þar meðal annars starfsemi stofnunarinnar. Í lok námskeiðsins kynntu þátttakendur vöruhugmyndir fyrir aðilum frá Útflutningsráði, Ferðamálastofu og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða. Ljóst er að um margar og áhugaverðar hugmyndir er að ræða sem munu fara í framkvæmd á næstunni. Mynd: Að loknu námskeiðinu fyrir vestan stilltu þátttakendur sér upp fyrir framan Hótel Djúpavík.