Vestfirðir fá evrópsk ferðamálaverðlaun
Í vikunni voru EDEN ferðaverðlaunin afhent í Brussel. Einn áfangastaður er valinn frá hverju þátttökuríki í Evrópu og hljóta verðlaunahafar titilinn "2010 EDEN Destination for Sustainable Aquatic Tourism" og voru Vestfirðir fulltrúar Íslands.
Markmið EDEN verkefnisins
Forsaga málsins er sú að í byrjun mars óskaði Ferðamálastofa eftir umsóknum vegna verkefnisins og fyrir valinu urðu áfangastaðurinn Vestfirðir og verkefnið Vatnavinir Vestfjarða. Markmið EDEN verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni. Þema ársins 2010 var Sjálfbær ferðaþjónusta í vatns- og sjávartengdri ferðaþjónustu (Sustainable Aquatic Tourism).
Strangar kröfur gerðar
Kynning á öllum verðlaunaáfangastöðunum fór fram í tengslum við Evrópska ferðamáladaginn í Brussel á mánudag. "Það er mikill heiður að fá þessi verðlaun því það eru gerðar strangar kröfur til verðlaunahafanna. Til að mynda þurfa þetta að vera hugsjónarverkefni með tilliti til uppbyggingar á svæðinu og umhverfisvernd," segir Viktoría Rán Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða.
Um Vatnavini Vestfjarða
Vatnavinir Vestfjarða er samstarfshópur í heilsutengdri ferðaþjónustu þar sem landeigendur, ferðaþjónar, stjórnsýsla og aðrir áhugamenn á Vestfjörðum vinna í nánu samstarfi með Vatnavinum og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða sem hlúð hafa að framgangi verkefnisins sem hrint var úr vör fyrir tveimur árum. Markmiðið verkefnisins er að þróa vestfirskt aðdráttarafl á heimsvísu tengt náttúru, heilsu, baðmenningu og vatni og auka þannig verðmætasköpun innan svæðisins. Samstarfshópurinn Vatnavinir Vestfjarða hvetur til sjálfbærrar nýtingar náttúrulauga á Vestfjörðum og nýjunga í heilsuþjónustu er stuðla að fjölgun ferðamanna á Vestfjörðum á næstu árum. Þess má geta að Vatnavinir Vestfjarða hafa opnað nýjan vef á slóðinni www.watertrail.is.
Hefur verulegt markaðslegt gildi
Allir EDEN verðlaunahafar geta treyst á töluverða umfjöllun í fjölmiðlum í Evrópu í tengslum við verðlaunaafhendinguna og á vefsíðum og kynningarritum EDEN verkefnisins eftir það. EDEN verðlaunin eru viðurkenning á gæðum viðkomandi áfangastaðar og hafa mikla þýðingu fyrir markaðssetningu. Hér að neðan má sjá tvö myndbönd sem EDEN vann fyrir verðlaunahafana og þeir geta notað sem kynningarefni fyrir ferðaþjónustuna og myndir sem teknar voru í Brussel er verðlaunin voru afhent.
Verðlaunin afhent. Frá vinstri: Sveinn Rúnar Traustason, umhverfisstjóri Ferðamálastofu; Vigdís Esradóttir, Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði; Antonio Tajani, varaforseti Evrópuráðsins og Sigurður Atlason, formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða.