Vestnorden í Kaupmannahöfn að ári liðnu
Vestnorden 2009 verður haldin í Kaupmannahöfn dagana 16. og 17. september á næsta ári. Þá er komið að Grænlendingum að sjá um kaupstefnuna sem verður sú 24 í röðinni.
Þetta var meðal þess sem fram kom á sameiginlegum blaðamannafundi ferðamálastjóra vestnorrænu landanna þriggja, þ.e. Íslands, Færeyja og Grænlands, og formanns NATA (Ferðamálasamtaka Norður-Atlantshafsins), sem haldinn var í tengslum við Vestnorden 2008 í Reykjavík fyrr í vikunni. Löndin þrjú stofnuðu NATA í ársbyrjun 2007 og færðust þá meðal annars þangað verkefni Vestnorræna ferðamálaráðsins, þar með talið Vestnorden. Kaupstefnan er haldin til skiptis í löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Fram kom á fundinum að löndin stefna á að treysta enn og efla samstarf sitt í gegnum NATA með ýmsum hætti.
Mynd: Súsanna E. Sørensen frá SamVit (Ferðamálaráði Færeyja); Thomas Rosenkrands, ferðamálastjóri Grænlans; Bjarne Eklund formaður NATA og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.