Vestnorden sett í gærkvöld
Vestnorden ferðakaupstefnan var sett í Þórshöfn í Færeyjum í gærkvöld og stendur fram á miðvikudag. Það eru Ferðamálaráð Íslands, Grænlands og Færeyja sem standa að kaupstefnunni, líkt og þau hafa gert síðastliðna tvo áratugi.
Hittast á stuttum fundum
Sýnendur á Vestnorden koma frá vestnorrænu löndunum þremur, auk þess sem Ferðamálaráð Hjaltlandseyja tekur þátt. Samtals taka 112 fyrirtæki frá þessum löndum þátt að þessu sinni, þar af 70 frá Íslandi. Á kaupstefnunni hitta sýnendurnir ferðaheildsala hvaðanæva að úr heiminum sem eru að selja ferðir til norrænu landanna og eiga með þeim stutta fundi sem búið er að tímasetja áður en kaupstefnan hefst. Flóran hjá kaupendunum eða ferðaheildsölunum er fjölbreytt en ríflega 90 kaupendur frá 19 löndum eru skráðir til leiks. Má þar nefna fyrirtæki frá Ástralíu, N.-Ameríku og Rússlandi.