Fara í efni

Vetrarhátíð í Reykjavík

SetningVetrarhatidar2002
SetningVetrarhatidar2002

Vetrarhátíð í Reykjavík verður haldin í annað sinn dagana 27. febrúar-2. mars nk. Ráðgert er að gera hana að árvissum viðburði sem lífgi upp á borgarlífið á vetrarmánuðum á sama hátt og Menningarnótt lýsir mannlífið upp í sumarlok.

Höfuðborgarstofa stendur að heildarskipulagi og kynningu dagskrár fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Hátíðin mun fagna ljósi og vetri og dagskráin tengist menningu og listum, orku og atvinnulífi, félags- og skólastarfi, útivist, íþróttum, leikjum, umhverfi eða sögu.

Food&Fun
Matarveislan Food&Fun verður haldin í Reykjavík á sama tíma og í sameiningu mun þessir viðburðir kæta bæði líkama og sál íbúa og gesta höfuðborgarinnar.

Hátíð fyrir alla
Vetrarhátíðin er fyrir alla. Leitast verður við að dagskráin endurspegli fjölbreytt mannlíf borgarinnar er dag tekur að lengja. Stefnt er að því að allar helstu menningar- og menntastofnanir á höfuðborgarsvæðinu taki þátt í hátíðinni með einum eða öðrum hætti. Fleiri verða hvattir til þátttöku til að mynda íþróttafélög, samtök listamanna, hverfasamtök, verslanir, veitingastaðir og fjölmargir aðrir.

Hátíð um allan bæ
Þótt miðborg Reykjavíkur verði í sviðsljósinu sem miðpunktur hátíðarinnar þá heldur hún sig ekki einungis vestan lækjar, heldur breiðist út um alla borg og stefnt er að því að nota söfn, íþróttahallir og sundstaði borgarinnar, Fjölskyldugarð, skíðasvæði og Skautahöll svo eitthvað sé nefnt.

Vetrarhátíðin og Food&Fun matarveislan gera útmánuði í Reykjavík að ógleymanlegri upplifun. Nánari upplýsingar fást á www.reykjavik.is og www.tourist.reykjavik.is .

Nánari upplýsingar veitir Sif Gunnarsdóttir verkefnisstjóri, sif@rhus.rvk.is eða í síma 6939361.

Myndin er frá setningu Vetarhátíðar 2002