Vetrarhátíð í Reykjavík í næstu viku
Í næstu viku, nánar tiltekið dagana 17.-20. febrúar, verður Vetrarhátíð í Reykjavík haldin í fjórða sinn. Hátíðin er orðin að föstum lið í menningarlífi landsins og er farin að vekja verulega athygli út fyrir landsteinana.
Boðið er upp á þéttskipaða dagskrá þar sem fjölmargir aðilar, jafnt innlendir sem erlendir koma að málum. Hátíðin hefst með ljósatónleikum í Hallgrímskirkju þar sem kirkjan verður upplýst að utan og innan og tónlist varpað út. Að opnunarviðburði loknum taka við skemmtanir af ýmsu tagi. Meðal annars verður hagyrðingakvöld á Nasa þar sem fram koma m.a. Ómar Ragnarsson, Samúel Örn Erlingsson og Ólína Þorvarðardóttir. Í Fríkirkjunni verða tónleikar, eins og undanfarin ár og glæsileg sýning frá Vesturfarasetrinu á Hofsósi verður opnuð í Ráðhúsinu með skemmtilegri dagskrá. Bókmenntaganga verður á vegum Borgarbókasafns, danshátíð verður í Iðnó og myndarlegt Vetrarhásæti úr ís verður til fyrir utan Ingólfsnaust.
Á föstudagskvöldi hátíðarinnar verður haldin Safnanótt í fyrsta sinn í Reykjavík. Þá munu söfn út um allan bæ bjóða borgarbúa velkomna með ókeypis aðgangi til miðnættis, uppákomum, leiðsögn og fleira skemmtilegu. Meðal atriða sem boðið verður upp á eru danssýningar, tónlistarflutningur og margt fleira.
Eins og á Vetrarhátíð 2004 mun Alþjóðahúsið standa fyrir mikilli Þjóðahátíð og þar sem Tjarnarsalur Ráðhússins er orðinn of lítill fyrir uppákomuna, þá verður hátíðin að þessu sinni haldin í Perlunni á laugardeginum. Þar verða kynningar á mat og menningu af ýmsu tagi, uppákomur fyrir alla fjölskylduna, fræðsla og skemmtun.