Viðamiklar Íslandskynningar vestan hafs
Viðamiklar Íslandskynningar verða í Minneapolis í Bandaríkjunum og Toronto í Kanada næstu daga. Ferðamálaráð Íslands er meðal þeirra sem koma að málinu.
Ein umfangsmesta Íslandskynningin á neytendamarkaði
Flugleiðir í samvinnu við Flugleiðahótelin, Kynnisferðir, Iceland Naturally, Ferðamálaráð Íslands og Reykjavíkurborg standa að 10 daga Íslandskynningu í Mall of America í Minneapolis, stærstu verslunarmiðstöð Bandaríkjanna, 12. til 21. september. Um 80 manns koma að kynningunni sem er ein umfangsmesta Íslandskynning á neytendamarkaði sem ráðist hefur verið í.
80.000 til 100.000 gestir daglega
Meira en 28 milljónir manns heimsækja Mall of America árlega og er gert ráð fyrir að a.m.k. 80.000 til 100.000 gestir verði þar daglega meðan kynningin stendur yfir. Eftirlíkingar af fossum, Bláa lóninu, eldfjöllum og víkingabúðum verða á svæðinu og kynningarmyndir um Ísland verða sýndar á stórum vegg stanslaust í rúma 11 tíma daglega, en auk þess verður sett upp söluskrifstofa í verslunarmiðstöðinni. Íslenskir skemmtikraftar eins og t.d. hljómsveitirnar Guitar Islancio, Jagúar, Leaves og fleiri og félagar úr Njálusönghópi Sögusetursins á Hvolsvelli skemmta gestum, samkeppni um hver líkist mest Björk verður í gangi, íslenskir hestar verða á svæðinu fyrir börnin og Siggi Hall kynnir íslenska matreiðslu.
Ísland áberandi í Toranto
Í dag, föstudag, verður sérstök dagskrá á Delta Chelsea-hótelinu í Toranto í Kanada í tilefni stofnunar Íslensk-kanadíska verslunarráðsins. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, flytur hátíðarræðu og Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs í New York, greinir frá Íslandi sem áfangastað ferðmanna auk þess sem Páll Magnússon kynnir Fjárfestingastofuna og fjárfestingar á Íslandi, m.a. í kvikmyndagerð, og Hugh Porteous kynnir Alcan á Íslandi. Nú er Kvikmyndahátíðinni í Toronto, sem staðið hefur frá 4. september, að ljúka en á meðal mynda á henni eru Nói Albínói og Stormy Weather. Þá standa Iceland Naturally og sendiráð Íslands í Kanada fyrir ýmsum uppákomum í borginni í mánuðinum.