Fara í efni

Viðurkenning til Höfuðborgarstofu

Reykjavík
Reykjavík

Höfuðborgarstofa hlaut sérstaka viðurkenningu á ársþingi samtakanna European City Marketing í Aþenu í vikunni fyrir gott markaðsstarf og kynningu á Reykjavík. Verðlaunin voru nú afhent í fyrsta sinn en samtökin samanstanda af 130 borgum í Evrópu.

Dómnefndin lýsti því yfir að Höfuðborgarstofa hefði að þeirra mati náð einstökum árangri. Markaðssetning væri frumleg og fersk, stefnan skýr og árangurinn langt umfram það sem búast má við af svo lítilli markaðssskrifstofu.
Tvenns konar verðlaun voru veitt, annarsvegar fyrir borg sem áfangastað og hlaut York á Englandi  þau verðlaun og hins vegar fyrir ferðamálastofu Evrópuborgar. Reykjavík var tilnefnd sem ein af fimm ferðamálastofum borga og hlaut Gautaborg verðlaunin.

"Við erum mjög stolt og þakklát fyrir þessa viðurkenningu frá stærstu fagsamtökum í ferðaþjónustu í Evrópu. Þetta er sannarlega hvatning til þess að halda áfram á sömu braut og kynna Reykjavík enn betur sem áhugaverðan og einstakan áfangastað," segir Svanhildur Konráðsdóttir, sviðstjóri menningar-og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar