Fara í efni

Vika í Vestnorden

Vestnorden2002
Vestnorden2002

Gert er ráð fyrir að um 500 manns frá rúmlega 20 þjóðlöndum sæki Vestnorden ferðakaupstefnuna í Íþróttahöllinni á Akureyri en nú er rétt vika í að kaupstefnan hefjist. Löndin þrjú sem mynda Vestnorden hópinn, þ.e. Ísland, Færeyjar og Grænland, hafa skipst á um að halda kaupstefnuna og er þetta sú 17. í röðinni.

Þeir fyrstu þegar komnir
Markmiðið með ferðakaupstefnunni er að kynna þeim aðilum úti í heimi, sem selja ferðir til Íslands, Grænlands og Færeyja, það helsta sem er í boði í þessum þremur löndum í ferðaþjónustu. Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að um 500 manns sæki kaupstefnuna að þessu sinni, þar af um 290 aðilar sem bjóða vöru eða þjónustu til sölu í löndunum þremur, um 150 aðilar frá rúmlega 20 löndum sem eru að selja ferðir til Íslands, Færeyja og Grænlands, og loks fjölmargir erlendir fjölmiðlamenn auk opinberra gesta. Margir úr þessum hópi eru þegar komnir til landsins og munu nota dagana fram að kaupstefnunni til að ferðast um og kynna sér land og þjóð.

Stöðug aukning
Ferðamálaráð Íslands hefur veg og vanda að skipulagningu Vest-Norden ferðakaupstefnunnar. Það er stefna ráðsins að dreifa viðburðum á þess vegum um landið eftir því sem aðstæður gera það mögulegt og leyfa gestum þannig að kynnast af eigin raun þjónustunni sem víðast. Því er kaupstefnan ekki alltaf haldin á sama stað í hverju landi. Hún hefur m.a. verið haldin í Reykjavík og á Akureyri hér á landi en þetta er í 3. sinn sem hún er haldin nyrðra.

Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir það ánægjulegt hvernig sýningin hafi þróast. "Við byrjuðum í mjög smáum stíl fyrir 17 árum. Þá voru gististaðir og fyrirtæki á samgöngusviðinu nánast einráð í hópi sýnenda en síðan hefur kaupstefnan stækkað jafnt og þétt og hópurinn sem er að selja vöru og þjónustu er nú mun breiðari. Það er sérstaklega ánægjulegt að í ár eru mjög margir nýir kaupendur búnir að boða komu sína, m.a. fleiri aðilar en fyrr frá Bandaríkjunum og nokkrum löndum sem ekki hafa verið að selja ferðir til Vest-Norden landanna fram að þessu," segir hann.

Táknræn tímasetning
Magnús segir að veruleg breyting hafi átt sér stað á söluferlinu sjálfu á síðustu árum, sérstaklega með tilkomu internetsins. " Ferðakaupstefnan er því enn mikilvægari en áður og kjörinn vettvangur til að skapa tengsl á milli ferðaþjónustuaðila í þessum þremur löndum og þeirra sem eru að selja þessar ferðir," segir hann.

Aðspurður segir Magnús að tímasetningin, þ.e. að kaupstefnan skuli hefjast 11. september, sama dag og hryðjuverkamenn gerðu stórfelldar árásir á Bandaríkin í fyrra, sé tilviljun. "Við ákváðum þessa tímasetningu í fyrra, áður en árásirnar, sem hafa sett svo mikið mark á viðgang ferðaþjónustu um allan heim, voru gerðar. Við ákváðum síðan að halda okkar striki, m.a. til að sýna að ferðaþjónustan lætur ekki slá sig út af laginu á hverju sem gengur. Það má því segja að þessi tímasetning sé táknræn fyrir það að við höldum okkar striki," segir Magnús.