Fara í efni

Viking Rafting fær gæða- og umhverfisvottun Vakans


Viking Rafting hlaut gæða- og umhverfisvottun Vakans á dögunum en fyrirtækið, sem hóf starfsemi 2013, býður upp á flúðasiglingaferðir í Austari- og Vestari- Jökulsám Skagafjarðar.

Nauðsynlegt að vera skapandi og lausnamiðuð

„Frá upphafi hefur fyrirtækið verið útsjónarsamt og sjálfbært í rekstri, enda lítið fyrirtæki með takmarkaða innkomu og því nauðsynlegt að vera skapandi og lausnamiðuð,“ segir Ragnheiður Guðmundsdóttir skrifstofustjóri Viking Rafting, en hún hefur einnig haft starfsheitið Queen of all things off the water. „Þessi aðferðafræði hefur hingað til yfirleitt stafað af nauðsyn frekar en að vera hluti af stefnumótun fyrirtækisins. Þótti okkur hjá Viking Rafting vera kominn tími á að setja þessar lífrænu og nærandi starfsaðferðir í fastara form og gera þær hluta af stefnu fyrirtækisins.“

Þátttakandi í verkefni um nærandi ferðaþjónustu

Viking Rafting sótti því um að taka þátt í CE4RT verkefni Evrópusambandsins en CE4RT stendur fyrir hringrásarhagkerfi fyrir nærandi ferðaþjónustu. „Ástæðan fyrir því að Viking Rafting sótti um að taka þátt í því verkefni er sú að okkur hjá fyrirtækinu skorti kunnáttu og fjármagn til þess byrja á slíkri vegferð. Við vorum meðvituð um að í þeim tilgangi að gera sjálfbærni að hluta af stefnumótun fyrirtækisins og færa það nær grænni gæða vottun þá þurftum við alla þá aðstoð sem við gátum fengið.“ segir Ragnheiður.

Vottun Vakans best sniðin að okkar starfsemi

„Stefnan var fljótt sett á Vakann þar sem sú vottun er hvað best sniðinn að þeirri starfsemi sem Viking Rafting býður upp á. Með aðstoð Guðnýar Káradóttur hjá VSÓ ráðgjöf, þá náðum við að ramma utan um sýn og sjálbærni fyrirtækisins og gera aðgerðaáætlun fyrir framtíðar áform um nærandi ferðaþjónustu. Við hjá Viking Rafting erum mjög spennt fyrir framtíðinni og öllum þeim spennandi verkefnum sem bíða okkar og erum einnig mjög stolt af þeim marmiðum sem fyrirtækið hefur nú þegar náð, líkt og gæða- og umhverfisvottun Vakans," segir Ragnheiður. Það var vottunarstofan iCert sem sá um vottun Viking Rafting og fékk fyrirtækið silfurmerki í umhverfishlutanum.

Ferðamálastofa óskar eigendum og starfsfólki Viking Rafting innilega til hamingju með glæsilegan árangur.