Yfir 200 kaupendur á Vestnorden
Um 560 þátttakendur eru skráðir á 23. Vestnorden ferðakaupstefnuna sem hefst formlega í kvöld og stendur fram á miðvikudag. Er þetta svipaður þátttakendafjöldi og á síðustu kaupstefnu hér á landi, haustið 2006. Sérstakar svæða- og landshlutakynningar eru nýlunda að þessu sinni á kaupstefnunni sem ferðamálayfirvöld á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum hafa staðið fyrir árlega í rúma tvo áratugi.
Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem stofnuð voru af löndunum þremur í ársbyrjun 2007 og tóku þá m.a. við starfsemi Vestnorræna ferðamálaráðsins, standa nú fyrir Vestnorden ferðakaupstefnunni sem haldin er til skiptis í löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Að þessu sinni fer kaupstefnan hér fram í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda og eru skráðir þátttakendur um 560 talsins. Þar af eru ríflega 200 ferðaheildsalar frá alls 28 löndum, víðsvegar um heiminn og koma sumir um langan veg, t.d. frá Ástralíu, Filippseyjum og Japan. Á Vestnorden hitta þeir ferðaþjónustuaðila frá vestnorrænu löndunum þremur á stuttum fyrirframbókuðum vinnufundum, kynna sér hvað er í boði og eiga viðskipti.
Landshlutakynningar nýjung á Vestnorden
Nýjung á kaupstefnunni að þessu sinni eru sérstakar landshlutakynningar sem fara fram miðvikudaginn 17. september og segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri að þetta framtak sýni vel þá þróun sem eigi sér stað í markaðssetningu á ferðaþjónustunni á Íslandi og víðar.
?Það er mikill styrkur í því fyrir greinina í heild þegar einstök svæði geta tekið höndum saman og unnið að kynningar- og markaðsmálum á sínu landsvæði þó svo þessi fyrirtæki séu svo í samkeppni sín á milli um einstaka viðskiptavini,? segir Ólöf Ýrr og er bjartsýn á framtíð ferðaþjónustu í vestnorrænu löndunum.
Vestnorden kaupstefnan verður sett formlega kl. 19:00 í dag í Hellisheiðarvirkjun. Óformleg dagskrá kaupstefnunnar hófst raunar strax um helgina þegar kaupendunum var boðið upp á kynnisferðir til valinna áfangastaða á Íslandi. Eftir að kaupstefnunni lýkur, á hádegi miðvikudaginn, gefst ferðaheildsölunum kostur á að fara í nokkurra daga kynnisferðir til Grænlands og Færeyja.
Nánari upplýsingar um dagskrá og þátttakendur á Vestnorden 2008 er að finna á vefsíðunni: www.vestnorden.com.