Fara í efni

Yfir 260 fyrirtæki með í yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu

Samfélagsábyrgð undirskrift
Í efri röð: Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í miðið og sitt hvoru megin við hann Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, klasastjóri Íslenska ferðaklasans. Sitjandi frá vinstri: Smári Sigurðsson, formaður Landbjargar; Anna Katrín Einarsdóttir, verkefnastjóri Stjórnstöð Ferðamála; Þuríður Aradóttir, forstöðumaður Markaðsstofu Suðurnesja; Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu; Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar; Sævar Skaptason, formaður Íslenska ferðaklasans og Áshildur Bragadóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu.

Yfirlýsing um ábyrga ferðaþjónustu var undirrituð í Háskólanum í Reykjavík þann 10. janúar að viðstöddum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, sem er verndari verkefnisins. Það eru Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn sem standa að verkefninu í samstarfi við Ferðamálastofu, SAF, Íslandsstofu, Stjórnstöð ferðamála, Markaðsstofur landshlutanna, Höfuðborgarstofu og Safetravel.

Yfir 260 fyrirtæki eru þegar þátttakendur en á ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að fyrirtæki tengd ferðaþjónustu sammælist um nokkrar skýrar og einfaldar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar.

Áhersluþættirnir eru:

1. Ganga vel um og virða náttúruna.
2. Tryggja öryggi gesta okkar og koma fram við þá af háttvísi.
3. Virða réttindi starfsfólks.
4. Hafa jákvæði áhrif á nærsamfélagið.

Nánari upplýsingar og myndir á vef Festu.


Að lokinni undirskrift í HR.


Einnig var skrifað undir samtímis á fleiri stöðum á landinu og hér eru þátttakendur á Akureyri.