Fara í efni

Fjölsóttur ferðaþjónustudagur í gær


Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdasjóri SAF, og Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri, stýrðu pallborðsumræðum
með erlendu fyrirlesurunum þremur; þeim Susan Sidder frá Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna, Chris Taylor frá VisitScotland
og Tim Bamford frá Umhverfisstofnun Nýja-Sjálands.

 

Margt var um manninn á Ferðaþjónustudeginum 2024, sem haldinn var í Hörpu í gær í samstarfi Samtaka ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu, Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þingvallaþjóðgarðs. Umfjöllunarefnið brennur líka á mörgum nú um stundir, álagsstýring á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Hefja samtalið

Á ráðstefnunni var sjónum beint að áskorunum og reynslu hér á landi sem erlendis og leitast við að hefja samtal stjórnvalda og fyrirtækja í ferðaþjónustu um þetta mikilvæga viðfangsefni.

Reynsla annarra og raunhæf dæmi

Erlendu fyrirlesararnir þrír miðluðu reynslu þriggja landa frá þremur heimsálfum, Bandaríkjunum, Skotlandi og Nýja-Sjálandi. Innlendu fyrirlesararnir nálguðust málið einnig út frá ólíkum sjónarhornum og milli erinda voru sýnd stutt myndbönd með raunhæfum dæmum frá Vatnajökulsþjóðgarði, Þjóðgarðinum á Þingvöllum og Umhverfisstofnun.

Gögn nýtt til áframhaldandi vinnu

Af þessu má sjá að viðstaddir voru vel nestaðir þegar farið var í vinnustofur með þátttöku allra gesta seinni part dagsins. Gögn sem þar urðu til verða nýtt til áframhaldandi vinnu þeirra sem að ráðstefnunni stóðu. Deginum lauk með pallborðsumræðum ferðamálaráðherra, umhverfisráðherra og fulltrúa úr atvinnugreininni, sem formaður SAF stýrði.

Verið er að vinna upptökur, myndir og fleira efni frá ráðstefnunni og mun það birtast á næstu dögum. Þá er ekki úr vegi að minna fólk á að setja Ferðaþjónustuvikuna 14.-16. janúar næstkomandi í dagatalið sitt en dagskrá hennar er óðum að taka á sig mynd.

Deginum lauk með pallborðsumræðum ferðamálaráðherra, umhverfisráðherra og fulltrúa úr atvinnugreininni,
sem formaður SAF stýrði.