Ferðalög Íslendinga 2023 og ferðaáform þeirra 2024
Samkvæmt nýlegri könnun Ferðamálastofu meðal landsmanna var ferðaárið 2023 með líflegasta móti og áform um ferðalög á árinu 2024 að sama skapi fjölbreytt. Niðurstöður könnunarinnar sem var gerð á tímabilinu 25. janúar til 13. febrúar af Gallup gefa til kynna að ríflega átta af hverjum tíu landsmönnum hafi ferðast innanlands á síðasta ári, um sjö af hverjum tíu farið í dagsferð og um átta af hverjum tíu í utanlandsferð. Allt bendir til að ferðalög landsmanna innanlands leiti jafnvægis og líkist því sem var fyrir Covid-19 faraldurinn.
Ferðalög innanlands þykja dýr
Ýmsar viðhorfsspurningar í könnuninni gefa til kynna að landsmönnum finnist of dýrt að ferðast um landið en tveir af hverjum fimm nefndu hátt verðlag þegar þeir voru inntir eftir því hvort eitthvað stæði í vegi fyrir því að þeir ferðuðust innanlands. Margt annað kemur til s.s. veðrið (25,2%), efnahagur (18,1%), vinnan (17,0%) og utanlandsferðir (15%). Rökstuðningur fyrir meðmælaskori (NPS)* svarenda fyrir ferðalögum innanlands snérist jafnframt að miklu leyti um hversu dýrt væri að ferðast um landið en NPS skorið mældist 14 í ársbyrjun 2024 eða tuttugu stigum lægra en þegar það mældist hæst, árið 2020.
Tækifæri á innanlandsmarkaðnum
Helstu hvatar að ferðalögum landsmanna innanlands samkvæmt könnuninni eru að njóta samveru með fjölskyldu eða vinum (66,4%), ferðast um og njóta náttúrunnar og nýrra staða (63,1%) og að komast í burtu frá hversdagsleikanum (41,6%). Þó svo helmingur landsmanna segist fara oftast á sömu staðina þegar þeir ferðast innanlands langar átta af hverjum tíu að upplifa eitthvað nýtt og heimsækja nýja staði. Ferðalög um landið virðast þó ekki ætla að verða á kostnað utanlandsferða en innan við fimmtungur segist hafa meira gaman af því að ferðast innanlands en utan. Umhverfisvitund landans virðist ekki standa í vegi fyrir ferðalögum utan en tæplega þrír af hverjum fimm ætla ekki að fækka utanlandsferðum á næstu misserum af umhverfisástæðum.
Hvaða staðir/landsvæði mest spennandi
Þegar svarendur voru spurðir hvaða staðir eða landsvæði þeim fyndist mest spennandi til ferðalaga á Íslandi voru Vestfirðir oftast nefndir (16,7%) en þar á eftir komu Austurland/Austfirðir (12,4%), Norðurland (7,4%), Suðurland (6,9%), Hálendið (5,8%) og Snæfellsnes (4,6%). Fjölmargir staðir og svæði voru jafnframt nefnd þegar svarendur voru spurðir um hvað var minnisstæðast úr ferðalögum þeirra innanlands á síðasta ári en náttúrutengdir þættir, afþreying af ýmsu tagi og menningartengd starfsemi skoruðu jafnframt hátt.
Ferðaáform 2024
Fjórðungur landsmanna (25,4%) hefur í hyggju að ferðast meira innanlands í ár en í fyrra, tæplega þrír af hverjum fimm (56,9%) svipað og um 17,7% minna. Þegar kemur að utanlandsferðum áformar um fimmtungur (21,2%) að ferðast meira til útlanda, um helmingur (51,1%) svipað og tæplega þrír af hverjum tíu (27,7%) minna.
Margskonar ferðalög eru fyrirhuguð. Um helmingur ætlar í sumarbústaðaferð innanlands á árinu og álíka hátt hlutfall (49,1%) í borgarferð erlendis. Um tveir af hverjum fimm (42,2%) hafa áform um að heimsækja vini og ættingja hérlendis og ríflega fjórðungur (28,4%) erlendis. Sólarlandaferðir er jafnframt vinsælar sem og vinaferðir og útivistarferðir. Tæplega einn af hverjum tíu (8,4%) landsmönnum hefur engin ferðaáform á árinu.
Samandregnar niðurstöður um ferðalög landsmanna 2023:
-
Utanlandsferðir
- 80,1% landsmanna ferðuðust til útlanda árið 2023, 6,4 prósentustigum fleiri en árið 2022. Til samanburðar ferðuðust 79,5% til útlanda árið 2019 og 83,1% 2018.
- Farnar voru að jafnaði 2,7 ferðir til útlanda, álíka margar og árið áður (2022) og árið 2019.
- Meðalfjöldi gistinótta á ferðalögum utan var 23,5 nætur árið 2023 og hafa þær ekki mælst svo margar áður í könnunum Ferðamálastofu. Til samanburðar mældust gistinætur 21,4 talsins árið 2022, 19 árið 2019 og 20 árið 2018.
- Spánn (þ.m.t. Kanaríeyjar) og Portúgal voru sem fyrr vinsælustu áfangastaðirnir en þar á eftir komu Danmörk, Bretlandseyjar, Bandaríkin og Kanada, Ítalía og Þýskaland.
- Helmingur (50,2%) þeirra sem ferðaðist utan fór í borgarferð, tæplega helmingur (46,8%) í sólarlandaferð, ríflega þriðjungur (35,9%) í heimsókn til vina eða ættingja og tæplega fjórðungur (23,3%) í vinnutengda ferð.
-
Ferðalög innanlands
- 84,1% landsmanna ferðuðust innanlands árið 2024 og er um að ræða álíka hátt hlutfall og mælst hefur í könnunum Ferðamálastofu síðustu ár.
- Farnar voru að jafnaði 5,8 ferðir, tæplega einni ferð færri en 2023. Til samanburðar voru farnar 6,7 ferðir árið 2019 og 6,2 árið 2018.
- Um 79% ferða innanlands á síðasta ári voru tilkomnar vegna ferðalaga í tengslum við frí, skemmtiferð, áhugamál eða tómstundir, um 10% vegna vinnu eða viðskipta og 12% vegna annars tilgangs.
- Um 16,7 gistinóttum var varið á ferðalögum innanlands á síðasta ári, nærri einni og hálfri nótt fleiri en árið 2022. Gistinæturnar voru hins vegar færri árið 2019 (-2,7) og árið 2018 (-3,8). Niðurstöður gefa til kynna að um 31,1% gistinótta á ferðalögum hafi verið eytt á Suðurlandi um 23,2% á Norðurlandi, um 15,4% á Vesturlandi, um 10% á Vestfjörðum, um 10% á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi, um 7,7% á Austurlandi, og um 2,5% á hálendinu.
- Flestir landsmanna ferðuðust innanlands í júlí (66%) og ágúst (58,3%).
- Sú afþreying sem hvað flestir voru að greiða fyrir á ferðalögum um landið var sund og jarðböð (58,4%), söfn og sýningar (23,3%).
-
Dagsferðir
- Um sjö af hverjum tíu landsmönnum fóru í dagsferð árið 2023 og fóru þeir að jafnaði 5,9 ferðir. Dagsferðir mældust álíka margar 2022 en á árunum 2018-2019, 3,5-4,1 talsins.
- Flestar dagsferðir voru farnar í þeim tilgangi að fara í bíltúr út úr bænum (46,1%), fara í heimsókn til vina og ættingja (36,6%), komast úr daglegu amstri (34,9%) eða til að fara í sund, náttúrulaug eða sjóböð (25%).
- Ríflega tvær af hverjum fimm (40,7%) dagsferðum árið 2023 voru farnar á Suðurlandinu. Þar á eftir fylgdu ferðir á höfuðborgarsvæðinu (14,4% ferða), Vesturlandinu (14,3%) og Norðurlandinu (12,6%).
Um könnunina
Könnunin var unnin sem netkönnun á tímabilinu 25. janúar til 13. febrúar 2024. Úrtakið var 2.505 einstaklingar, 18 ára og eldri af landinu öllu, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Svarfjöldi var 1.197 einstaklingar og var þátttökuhlutfallið 47,8%. Gögn könnunarinnar voru vigtuð til þess að úrtakið endurspeglaði þýðið með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum Gallup í samvinnu við Ferðamálastofu. Í yfirgripsmikilli skýrslu um könnunina eru niðurstöður settar fram í 12 köflum með myndrænum hætti og í töflum, auk viðauka og leiðbeininga um túlkun niðurstaðna. Fremst eru samandregnar niðurstöður en þaðan er vísað í nánari útlistun á niðurstöðum einstakra spurninga. Í viðbótarskýrslu má finna niðurstöður úr spurningu um ástundun 19 útivistarmöguleika sem landsmenn stunda í daglegu lífi og á ferðalögum sér til heilsubótar og/eða ánægju.
Skýrslur
* NPS (Net Promoter score): Um er að ræða alþjóðlegan mælikvarða sem segir til um mismun á hlutfalli þeirra sem eru tilbúnir að mæla með t.d. áfangastað, fyrirtæki eða vöru og hlutfalli þeirra sem eru líklegri til að mæla gegn sömu þáttum. NPS skor getur verið á bilinu -100 til 100.
Nánari upplýsingar gefur Oddný Þóra Óladóttir - oddny@ferdamalastofa.is