Ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi hafa að einhverju leyti eða stórum hluta komist upp úr þeim öldudal sem þau lentu í við heimsfaraldurinn Covid-19; ferðaþjónustan er tekin að blómstra á ný og ferðamenn farnir að streyma til landsins. Það er því áhugavert að sjá hvernig fyrirtækin mátu síðastliðið sumar, hvernig þeim reiddi af, hvort þau nýttu árin sem faraldurinn geisaði til umbóta og hvernig þau meta horfurnar framundan. Þrátt fyrir að veiran hafði ennþá haft áhrif á íslenska ferðaþjónustu árið 2022, þá er ljóst að ferðaþjónustan gekk betur síðastliðið sumar (2022) en árið áður. Til að fylgjast með þróun greinarinnar fékk Ferðamálastofa Gallup til að gera í þriðja sinn ítarlega könnun meðal ferðaþjónustuaðila til að varpa skýrara ljósi á ferðasumarið 2022.
Könnunin er hugsuð sem stöðugreining á því hvernig rekstur ferðaþjónustunnar gekk síðastliðið sumar í samanburði við fyrrasumar (2021) og sumarið 2019 (f. covid-19) og því hvernig fyrirtækin meta horfurnar framundan. |