Fara í efni

Erlendir ferðamenn á Akureyri, Höfn, Borgarnesi og Mývatnssveit sumarið 2019

Nánari upplýsingar
Titill Erlendir ferðamenn á Akureyri, Höfn, Borgarnesi og Mývatnssveit sumarið 2019
Undirtitill Niðurstöður ferðavenjukönnunar
Lýsing

Í júní gaf Ferðamálastofa út skýrslur með niðurstöðum ferðavenjukönnunar meðal erlendra gesta á fjórum þéttbýlisstöðum á Íslandi sumarið 2019. Könnunin aflaði upplýsinga um ýmsa einkennandi þætti ferðamanna á rannsóknarsvæðunum, svo sem búsetuland, ferðamáta, gistimáta og dvalarlengd, auk þess sem ástæða heimsóknar og útgjaldamynstur þeirra var skoðað. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar að frá árinu 2013.

Áfangastaðirnir

Ferðamálastofa fól Rannsóknamiðstöð ferðamála að framkvæma könnunina sumarið 2019. Könnunin náði til fjögurra áfangastaða: Borgarness, Akureyrar, Mývatnssveitar og Hafnar í Hornafirði. Framkvæmd og verkefnisstjórn var í höndum Þórnýjar Barðadóttur.

Hver áfangastaður hefur sín sérkenni

Helstu niðurstöður voru þær að óháð heimsóknarsvæði voru erlendir ferðamenn sumarsins 2019 fólk í fríi á ferð með fjölskyldu og vinum og þá helst á bílaleigubíl. Meðalaldur gesta á könnunarstöðunum fjórum var vel sambærilegur eða 42-46 ár. Niðurstöður gefa þó vísbendingar um að ferðavenjur og útgjöld erlendra sumargesta á þessum stöðum voru talsvert ólík og lá helsti munurinn í tilgangi heimsóknar, dvalartíma og neyslumynstri gesta.

  • Á Akureyri stóðu upp úr heimsóknir í Lystigarð, Akureyrarkirkju og á kaffihús bæjarins.
  • Í Mývatnssveit nutu göngutúrar, Jarðböðin og útsýnisferðir mestra vinsælda.
  • Á Höfn voru það veitingahúsaferðir og afslöppun
  • Í Borgarnesi verslun, safnferðir og tækifæri til að rétta úr sér.

Þessar niðurstöður ramma raunar inn það sem virðist vera helsti tilgangur heimsókna til þessara staða.

Dvalartími erlendra ferðamanna var áberandi stystur í Borgarnesi (9,2 klst.) en lengst dvöldu menn á Akureyri (24,6 klst.). Enginn þessara fjögurra staða reyndist hins vegar hafa verið helsta ástæða Íslandsferðar.

Ólík útgjöld milli áfangastaða

Ólík ferðahegðun endurspeglast einnig í útgjöldum ferðamanna. Meðalútgjöld erlendra ferðamanna á sólarhring voru tvöfalt hærri á Akureyri (15.816 kr.) og í Mývatnssveit (15.174 kr.) heldur en í Borgarnesi (7.309 kr.) og útgjöld á Höfn (10.603 kr.) voru þar á milli. Þeir þættir sem mestu réðu varðandi útgjöld voru gisting og afþreying.

Almenn ánægja með heimsókn

Ánægja með heimsókn reyndist alls staðar mikil, var hæst 99% á Akureyri og lægst 94% á Höfn. Á öllum stöðum komu fram fjölmargar jákvæðar athugasemdir um náttúrufegurð og fegurð staðanna Töluverður breytileiki kom hins vegar fram á meðmælaskori. Í Mývatnssveit (+79) og á Akureyri (+78) var skorið vel yfir +75 viðmiðum sem sett voru í Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Meðmælaskorið var nokkuð lægra í Borgarnesi (+62) en umtalsvert lægst á Höfn (+30). Í Borgarnesi og á Höfn var það lítið framboð afþreyingar sem helst kom í veg fyrir meðmæli auk þess sem skortur á gistiframboði, hátt verðlag gistingar og lélegt ástand tjaldsvæðis drógu úr því að menn teldu sig geta mælt með Höfn sem áfangastað.

Efni

Samantektarskýrslur eru þegar aðgengilegar á vefsíðu Ferðamálastofu, 
Hér að neðan má hlaða niður skýrslum fyrir hvern stað um sig:

Helstu niðurstöður könnunarinnar verða einnig gerðar aðgengilegar í Mælaborði ferðaþjónustunnar undir liðnum Kannanir.

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn Þórný Barðadóttir
Flokkun
Flokkur Ferðavenjur
Útgáfuár 2020
Útgefandi Ferðamálastofa
Leitarorð ferðavenjur, kannanir, könnun, útgjöld, upplifun, viðhorf, ferðamenn, ferðahegðun, fjöldi ferðamanna, tölfræði, talnaefni, talningar, Akureyri, Höfn, Höfn í hornafirði, Mývatnssveit, Borgarnes, rmf, rannsóknamiðstöð, rannsóknamiðstöð ferðamála