Lýsing |
Í skýrslu þessari er fjallað um núverandi stöðu salernismála á helstu áningarstöðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Fjölgun gesta sem heimsækja Vatnajökulsþjóðgarð hefur verið mikil undanfarin ár, í takt við fjölgun erlendra ferðamanna sem sækja Ísland heim. Þjóðgarðurinn hefur unnið að umbótum á sviði salernis- og fráveitumála á mörgum áningarstöðum nú þegar en víða er frekari umbóta þörf, bæði hvað fjölgun salerna varðar sem og meðhöndlun seyru. Listi með spurningum varðandi salernismál og seyrumeðhöndlun var sendur til þjóðgarðsvarða allra svæða. Við greiningu svara kom í ljós að endurnýting seyru hefur ekki gengið eins vel og vonast var til, og nauðsynlegt að finna seyru og þurrsalernisúrgangi betri farveg en tíðkast í dag. Einnig þarf að fjölga salernum á mörgum áningarstöðum þjóðgarðsins og á sumum stöðum er vert að íhuga notkun óhefðbundinna salernislausna. þjóðgarðurinn notast í meirihluta við vatnssalerni og rotþrær enda er það sú lausn sem notast hefur verið við í flestum tilfellum innan íslenskrar ferðaþjónustu. Þó eru ýmsar óhefðbundnar salernislausnir á markaðnum í dag en ekki allar henta náttúrustöðum þar sem gestafjöldi er mikill. Þurrsalerni eru dæmi um salernislausnir sem hentað gætu sumum áningarstöðum Vatnajökulsþjóðgarðs og kannski sér í lagi þeim stöðum sem loka á veturna. Í skýrslunni eru kostir og gallar vatns- og þurrsalerna ræddir og einnig er farið yfir atriði sem vert er að hafa í huga við val á salernislausnum í framtíðinni innan þjóðgarðsins. |