Lýsing |
Í skýrslunni Þjóðgarðar á Vestfjörðum - sóknarfæri í byggðaþróun eru skoðaðir þeir möguleikar sem hafa verið nefndir í umræðunni um þjóðgarð á Vestfjörðum með tilliti til fyrirliggjandi þátta. Farið er yfir hvað ólíkar tegundir friðunar fela í sér og hvað þarf að vera til staðar svo svæði geti orðið þjóðgarður. Einnig er fjallað um hvers vegna íhuga ætti stofnun þjóðgarðs á svæðinu út frá hagrænu gildi. Hjörleifur Finnsson, verkefnisstjóri umhverfis- og loftslagsmála hjá Vestfjarðastofu, tók skýrsluna saman, en aðrir sérfræðingar Vestfjarðastofu komu einnig að henni, auk utanaðkomandi ráðgjafa.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að miklir hagsmunir felist í stofnun þjóðgarðs fyrir Vestfirði og að Dynjandisþjóðgarður sé besti einstaki kosturinn sem býðst, er það vegna staðsetningar hans innan fjórðungsins, aðgengis og tiltölulega einfalds eignarhalds. Einn helsti útgangspunktur skýrslunnar er hvernig þjóðgarðar geta verið áhrifaríkt tæki í byggðaþróun á Vestfjörðum og í því samhengi gæti Drangajökulsþjóðgarður verið sérlega áhugaverður. Þá er einnig skoðaðir aðrir möguleikar, líkt og heimsminjaskrá UNESCO, sem gæti verið spennandi kostur fyrir eyjuna Vigur. |