Lýsing |
Í þessari skýrslu er greint frá niðurstöðum rannsóknar á mögulegum áhrifum áformaðrar Svartárvirkjunar á ferðaþjónustu og ferðamennsku/útivist. Um er að ræða 9,8 MW virkjun í Svartá í Bárðardal-Þingeyjarsveit. SSB Orka er framkvæmdaraðili Svartárvirkjunar. Verkís hf hannar mannvirkið og hefur umsjón með mati á umhverfisáhrifum fyrir hönd framkvæmdaraðila. Rannsóknin er ein af þeim rannsóknum sem framkvæmdaraðili stendur fyrir svo hægt sé meta með upplýstum hætti heildar umhverfisáhrif Svartárvirkjunar í þeirri mynd sem lagt er upp með í Tillögu að matsáætlun (Arnór Þ. Sigfússon, Elín Vignisdóttir, Hugrún Gunnarsdóttir, Jóhannes Ófeigsson og Þórhildur Guðmundsdóttir, 2016). Í 3. grein laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skilgreinast umhverfisáhrif sem áhrif framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir á umhverfi, þar sem umhverfi er samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti. |