Heilsutengd ferðaþjónustua í des. 2001
Heilsutengd ferðaþjónusta
haldin í Eldborg, ráðstefnusal Hitaveitu Suðurnesja við Bláa
Lónið
6. desember 2001
Dagskrá | ||
kl. 09:30 | Afhending ráðstefnugagna | |
kl. 10:00 | Setning: | Hr. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra. |
kl. 10:15 | Hvatningarverðlaun Ferðamálaráðs í heilsutengdri ferðaþjónustu | |
|
Hr. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra. | |
kl. 10:30 |
Hvað er heilsutengd ferðaþjónusta | |
Guðmundur Björnsson, læknir og stofnandi SAGA SPA. | ||
kl. 11:00 |
Sérstaða íslenskrar náttúru s.s. vatns og leirs. | |
|
Hrefna Kristmannsdóttir, deildarstjóri hjá Orkustofnun. | |
|
Kynning á nokkrum fyrirtækjum/stofnunum í heilsutengdri ferðaþjónustu á Íslandi: | |
kl. 11:30 |
Bláa Lónið: Anna G. Sverrisdóttir. | |
kl. 11:35 | Heilbrigðisstofnun Þingeyinga / Baðfélagið í Mývatnssveit: Friðfinnur Hermannsson. | |
kl. 11:45 | Heilsuefling Stykkishólms:Ásthildur Sturludóttir. | |
kl. 11:50 | Reykjavík Spa City: Sigmar B. Hauksson. | |
kl. 11:55 | Brekkubær / Leiðarljós Snæfellsnesi: Guðrún Bergman. | |
kl. 12:00 | ÍSÍ, íþróttir og ferðaþjónusta:Helga Magnúsdóttir. | |
kl. 12:05 | Hádegishlé. | |
kl. 13:30 | Staða heilsutengdrar ferðaþjónustu á alþjóðavettvangi | |
Stephan Ritter, framkvæmdastjóri World Leisure í Frankfurt. | ||
kl. 14:00 | Framtíð Íslands í heilsutengdri ferðaþjónustu í víðum skilningi | |
Grímur Sæmundsen, framkvæmdastjóri Bláa Lónsins. | ||
kl. 14:30 | Fyrirspurnir til framsögumanna. | |
kl. 15:00 | Samantekt. | |
Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF. | ||
kl. 15:30 | Ráðstefnuslit. | |
Ráðstefnustjórar: | ||
Magnús Oddsson, ferðamálastjóri. | ||
Inngangur
Árið 2000 skilaði af sér skýrslu nefnd um heilsutengda
ferðaþjónustu á vegum Sturlu Böðvarssonar, samgönguráðherra. Nefnd þessi hafði starfað í rúmt ár og bar
samkvæmt skipunarbréfi að horfa á stöðu heilsutengdrar ferðaþjónustu á Íslandi og möguleika hennar til næstu
framtíðar. Skýrsla nefndarinnar var birt í júlí 2000 á blaðamannafundi í Bláa Lóninu. Í henni birtust margar
tillögur til ráðherra um aðgerðir af hálfu ráðuneytisins eða í samstarfi við önnur ráðuneyti og stofnanir og aðila
í þjóðfélaginu, sem eðlilegt var talið að kæmu að verkefnum um heilsutengda ferðaþjónustu á Íslandi.
Skýrslan er á heimasíðu Ferðamálaráðs Íslands "ferdamalarad.is" undir upplýsingar/umhverfismál
Ein af þeim tillögum, sem nefndin setti fram í skýrslu sinni, var að staðið yrði fyrir ráðstefnu um málaflokkinn. Á þessari ráðstefnu skyldu koma saman sérfræðingar sem tengdust þessu sviði, innlendir sem erlendir.
Fyrirlesarar ráðstefnunnar eru fulltrúar fyrirtækja og stofnana sem tengjast heilsutengdri ferðaþjónustu auk þess sem kynnt eru fyrirtæki og samtök sem þegar tengjast þessari grein ferðaþjónustu á Íslandi.
Eftir útkomu skýrslunnar um heilsutengda ferðaþjónustu hafa aðilar í ferðaþjónustu, opinberir sem einkaaðilar, bæði rætt og athugað mögulega sókn í þessari grein. Hið opinbera vill með ráðstefnunni styðja við greinina og framfarir í heilsutengdri ferðaþjónustu og hvetja fyrirtæki, sem hyggja á frekari landvinninga á því sviði, að standa faglega að allri uppbyggingu.
Það er von aðstandenda ráðstefnunnar, Ferðamálaráðs Íslands fyrir hönd ráðherra, að hún verði þátttakendum til fróðleiks og ekki síður heilsutengdri ferðaþjónustu til framdráttar.
Sturla Böðvarsson,
samgönguráðherra.
Ráðstefnustjóri, ágætu ráðstefnugestir.
Það gleður mig að fá tækifæri til að ávarpa ráðstefnu Ferðamálaráðs um heilsutengda ferðaþjónustu.
Það ber vott um bjartsýni og styrk í ferðaþjónustu að blásið sé til sóknar og boðað til þessarar
ráðstefnu. Viðbúið er að mikil vinna bíði þeirra er starfa í greininni, svo hægt verði að viðhalda þeim öra vexti
sem hefur einkennt hana síðustu árin.
Ráðstefna eins og þessi er, góður vettvangur fyrir umræðu um heilsutengda ferðaþjónustu. Það er von mín að framhald
verði á þeirri vinnu sem hafin er með ráðstefnu sem þessari, svo að umræðan um heilsutengda ferðaþjónustu haldi áfram
að þróast. Það er vissulelga mikið verk að vinna.
Eins og allir vita, sem koma að ferðaþjónustu á einhvern hátt, hefur íslensk náttúra verið stærsta aðdráttaraflið fyrir erlenda ferðamenn á leið til Íslands. Aðaláherslan hefur verið á skoðunar- og ævintýraferðir um fjöll og firnindi. Þegar kemur að heilsutengdri ferðaþjónustu er það máttur og virkni náttúrunnar sem er varan sem framreidd er til viðskiptavinanna og skipta þá náttúruauðlindirnar höfuðmáli. Því má segja að með heilsutengdri ferðaþjónustu sé í raun verið að markaðssetja náttúruna sjálfa með nýjum hætti, fremur en að um algjörlega nýtt fyrirbrigði sé að ræða.
Í "Stefnumótun í ferðaþjónustu", sem var unnin árið 1996, kemur skýrt fram að stefnt skuli að því að auka ferðamennsku í tengslum við heilsubót og heilbrigði, og að hefja skuli markaðssetningu á almennri heilbrigðisþjónustu erlendis. Gert er ráð fyrir að sérstaða Íslands, sem hreint og ómengað land, verði notuð til að koma landinu og þjónustunni á framfæri, sem og að gæði heilbrigðisþjónustunnar verði dregin fram.
Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnarinnar frá árinu 1999 er lögð áhersla á menningar-og heilsutengda ferðaþjónustu. Árið 1999 skipaði ég nefnd til að vinna að skýrslu um heilsutengda ferðaþjónustu sem gefin var út í júní árið 2000. Þar voru settar fram tillögur um hvernig best sé að standa að uppbyggingu á heilsutengdri ferðaþjónustu á Íslandi.
Í kjölfarið fól ég Ferðamálaráði að vinna að úrvinnslu og framgangi þeirra tillagna sem skýrslan og nefndarálitið felur í sér. Samkvæmt upplýsingum Ferðamálaráðs stendur yfir söfnun upplýsinga um sundlaugar, líkamsræktarstöðvar og fleiri slíka staði, sem leitt gæti til flokkunar á þessum stöðum í "Thermal baths" og "Spa". Þá var sett af stað hugmyndavinna fulltrúa ferðamálaráðs og ÍSÍ um hvernig þessir aðilar gætu unnið saman að framgangi heilsutengdrar ferðaþjónustu í samræmi við ábendingar í skýrslunni. Verið er að vinna að þessu verkefni og er þess vænst að hægt verði að kynna frekari úrvinnslu hugmyndanna. Einnig hafa verið gerðar viðamiklar rannsóknir á vegum Orkustofnunar á nýtingu jarðhita til ferðaþjónustu en frekari rannsókna er þörf á einstökum svæðum.
Auk þess er mikilvægt að kortleggja ferskvatnssvæði og kanna möguleika á vinnslu kísils og leirs til baða. Það ber að fagna
því að Orkustofnun hefur sýnt heilsutengdri ferðaþjónustu mikinn áhuga og unnið vel að þeim málum. Áhugi á
heilsutengdri ferðaþjónustu í heiminum er mikill og fer vaxandi, til þess benda allar rannsóknir. Segja má að skilyrði fyrir henni og
framrás þjónustunnar séu ákjósanleg hér á landi. Hér er heitt vatn í ómældu magni, ómengað drykkjarvatn,
hreint loft, leir og jurtir og fagurt mannlíf.
Heilbrigðisþjónusta á Íslandi er í háum gæðaflokki, og ástæða er til að nefna möguleika á að
framkvæma aðgerðir hér á erlendum gestum sem hingað koma. Nú þegar hafa læknastofur skoðað þennan möguleika og vonandi verður
framhald á þeirri vinnu. Stór hluti heilbrigðistækniiðnaðarins fer til útflutnings og er áætluð velta um 5-6 milljarðar króna
á ári hverju, en þar á meðal er stoðtækjaframleiðsla, þjónusta og lyf. Samstarf við þessa aðila getur verið mikilvægt
þegar kemur að markaðssetningu á heilsurækt og heilsuvernd á Íslandi.
Heilsu- og líkamsræktarstöðvum hefur fjölgað mjög á síðustu árum hér á landi og eru Íslendingar sífellt duglegri að nýta sér þær. Stöðvar eins og þessar eru stór hlekkur þegar kemur að skipulagningu á heilsuferðamennsku og sífellt er verið að bjóða upp á margþættari þjónustu til að mæta þörfum viðskiptavinanna. Kröfur ferðamanna aukast stöðugt og því verður að bjóða upp á vel skilgreinda þjónustu sem stendur undir væntingum.
Eins og áður sagði er Ísland vel fallið til þess að stunda heilsutengda ferðaþjónustu. Heilsubaðstaðurinn Bláa Lónið hefur t.d. verið einn vinsælasti ferðamannastaður Íslands á síðustu árum og er einnig orðinn vel þekktur erlendis. Þá hefur Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði starfað í nær hálfa öld með það að markmiði að efla heilbrigði og auka vellíðan gesta sinna, en hún hefur til þessa aðallega sinnt innlendum gestum.
Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja sérstaka athygli á starfi Heilsustofnunarinnar í Hveragerði sem rutt hefur brautina og verið frumkvöðull á sviði heilsutengdrar þjónustu á Íslandi. Einnig er mikill áhugi á heilsuferðamennsku á Snæfellsnesi og er margþætt undirbúningsvinna þar í fullum gangi. Dagskrá ráðstefnunnar ber líka vitni um mikla grósku í þessari grein ferðaþjónustunnar, þar sem margir ferðaþjónustuaðilar munu kynna hér starfsemi og hugmyndir sínar og er það vel.
Óhætt er að segja að ástæða sé til bjartsýni í þessari grein ferðaþjónustunnar, því möguleikarnir eru til staðar, þá þarf bara að virkja. Fyrrgreindir þættir sýna sérstöðu Íslands - sérstöðu sem hægt er að nýta við markaðssetningu á heilsutengdri ferðaþjónustu erlendis. Náttúruauðlindirnar eru til staðar, sem og tækifærin, og þess vegna verður að vanda til verka við markaðssetningu og aðra undirbúningsvinnu við heilsutengda ferðaþjónustu á Íslandi. Undirbúningur er forsenda árangurs í þessum efnum. Þess vegna skipaði ég starfshópinn til að vinna að heilsutengdri ferðaþjónustu, sem skilaði mjög góðum tillögum. Frumkvöðlar, SAF og Ferðamálaráð hafa því verk að vinna.
Mögulegur ávinningur Íslands af heilsutengdri ferðaþjónustu er að mínu mati mikill. Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar hefur í gegnum tíðina byggst á sérstæðri og ósnortinni náttúru og er með þessu verið að styrkja þá ímynd enn frekar. Með heilsutengdri ferðaþjónustu á að vera hægt að fá hingað til lands erlenda ferðamenn utan háannatíma, en það hefur verið eitt af helstu markmiðum í greininni nú síðustu ár. Þannig er hægt að stuðla að betri nýtingu gistirýmis og minnka neikvæð áhrif lágannar á afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem hefur verið eitt stærsta vandamál fyrirtækja í greininni.
Mikil breyting hefur verið á síðustu árum á högum fólks, þjóðir heims eldast og ráðstöfunartekjur hækka. Heilsulindir og staðir þar sem boðið er upp á líkamlega og andlega uppbyggingu og fyrirbyggjandi heilsuverndarþjónustu, verða sífellt vinsælli. Kanna verður möguleikana á að markaðssetja Ísland á þennan hátt, bæði fyrir Íslendinga og erlenda gesti. Faglegur undirbúningur og greining helstu markaðssvæða og markaðshópa er nauðsynlegt fyrir stefnumótun í greininni.
Markmið þeirrar stefnu verða að vera skýr, raunhæf og mælanleg, svo auðveldara sé að meta árangurinn hverju sinni. Fagmennska og fyrirhyggja tryggja vissulega ekki velgengni, en eru ein af forsendum þess að vel megi takast. Það er von mín að ráðstefnan hér í dag verði innlegg í umræðuna og mótun uppbyggingar þessarar greinar ferðaþjónustu sem hefur alla möguleika til að eflast mjög á næstu árum.
Hin mikla ógn hryðjuverka hefur dregið úr vexti ferðaþjónustunnar og valdið mkilu tjóni sem enn er ekki séð fyrir hversu mikið verður. Að undanförnu hefur verið unnið að undirbúningi aðgerða af hálfu stjórnvalda til þess að snúa vörn í sókn eftir 11. september. Fyrsta skrefið var að tryggja starfsemi flugfélaganna með því að gangast í ábyrgð fyrir íslensku flugfélögin og tryggja öryggisþætti flugvalla.
Næsta skref er að auka fjárveitingar til markaðsaðgerða innanlands sem utan og endurskipuleggja markaðsstarf á vegum samgönguráðuneytisins
en skrifstofa Ferðamálaráðs mun sjá um framkvæmdina. Framlög af fjárlögum til markaðsverkefna verða fjórfölduð og
hækka úr 50 milljónum í 200 milljónir. Með þeirri hækkun verður á næsta ári varið samtals allt að 380
milljónum króna, til landkynningar og markaðssetningar íslenskrar ferðaþjónustu af hálfu stjórnvalda. Þessi mikla aukning á
fjárframlögum er tákræn aðgerð stjórnvalda og um leið öflug útrás til stuðnings fyrirtækjunum sem eru að leggja mikla
fjármuni til markaðssetnigar áislenskrar ferðaþjónustu.
Markaðsstarf Ferðamálaráðs verður að skilgreina að nýju í ljósi breyttra aðstæðna í heiminum.
Ákveðið hefur verið að nýta útrás íslenskra fyrirtækja og taka höndum saman við viðpskiptalífið til enn frekari landkynningar. Stefnt er að því að gerðir verði þjónustusamningar við ákveðin fyrirtæki, sem hafa skrifstofur víða um heim. Þar er gert ráð fyrir að verði til staðar kynningarefni um Ísland, auk þess sem starfsmenn fyrirtækjanna munu miðla frekari upplýsingum um land og þjóð til viðskiptavina sinna. Ég vænti mikils af þessu samstarfi.
Ágætu ráðstefnugestir! Eins og fram hefur komið hér á undan er nokkuð ljóst að Ísland hefur alla burði til að ná langt í markaðssetningu á heilsutengdri ferðaþjónustu. Náttúruauðlindir hér á landi skapa óteljandi möguleika á að svala þörfum gesta okkar um betri heilsu og líðan. Þessa möguleika þurfum við að nýta á réttan hátt og nýta auðlindirnar af mikilli gát. Framtíðarsýnin er að saman starfi að uppbyggingu þessarar greinar ferðaþjónustunnar fagfólk í heilbrigðisþjónustu, aðilar frá orkufyrirtækjum, forsvarsmenn afþreyingarfyrirtækja sem leggja áherslu á útivist og síðast en ekki síst fagfólk í ferðaþjónustu. Ég er þess fullviss að ef rétt er að málum staðið bíða góðir tímar heilsuferðamennsku á Íslandi.
Ráðstefnan er sett.
Hvatningarverðlaun
Eins og ávallt þegar verðlaun eru veitt eru margir til kallaðir en fáir útvaldir. Eins er það í þessu tilfelli þegar
Ferðamálaráð veitir í fyrsta sinn Hvatningarverðlaun Ferðamálaráðs í Heilsutengdri ferðaþjónustu. Meðal þeirra
sem komu til greina má nefna Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði, en þar á bæ eru uppi áform um mikla
uppbyggingu á komandi árum og verður spennandi að fylgjast með hvernig tekst til. Þá má einnig nefna Orkuveitu Reykjavíkur, sem með
nýjum hætti er að markaðssetja sundlaugar Reykjavíkur á erlendum mörkuðum undir nafninu Reykjavík SPA City.
Eitt fyrirtæki þykir þó standa upp úr þegar kemur að veitingu þessarar viðurkenningar nú í fyrsta skiptið og var það samdóma álit allra í Ferðamálaráði að Bláa lónið skyldi hljóta verðlaunin.
Bláa Lónið var stofnað árið 1992 og tók við rekstri baðstaðarins við Bláa lónið árið 1994. Aðaleigendur eru Hitaveita Suðurnesja, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, fyrirtækin Hvatning, Olís og Flugleiðir ásamt sveitarfélögum á Suðurnesjum.
Nýi baðstaðurinn við Bláa lónið var opnaður formlega þann 15. júlí 1999. Þar gefur að líta glæsilega aðstöðu í mannvirkjum, sem falla einkar vel að stórbrotnu umhverfi. Frá því að nýi baðstaðurinn opnaði hafa um 790.000 gestir sótt staðinn heim. Þess má einnig geta, að í könnunum Ferðamálaráðs meðal erlendra ferðamanna, er Bláa lónið sá staður sem flestir sækja meðan þeir dvelja hér á landi.
Bláa lónið er gott dæmi um hve náttúran og auðlindir hennar nýtast okkur mannfólkinu á margvíslegan hátt. Í
Bláa lóninu er jarðsjór sem hefur verið nýttur til upphitunar ferskvatns og til framleiðslu rafmagns. Glöggir menn uppgötvuðu
jákvæð áhrif vatnsins í lóninu á húðsjúkdóminn psoriasis. Í dag er boðið upp á náttúrulega
meðferð við psoriasis á göngudeildinni við Bláa lónið. Meðferðin byggist á einstakri samsetningu steinefna og vistkerfi
blágrænna þörunga í jarðsjónum sem myndar Bláa lónið.
Bláa lónið framleiðir einnig athyglisverðar snyrtivörur sem sérstaklega eru ætlaðar til meðhöndlunar á húðvandamálum.
Þannig gefst þeim, sem ekki eiga möguleika á að baða sig í lóninu sjálfu, tækifæri til að njóta einstakra áhrifa
þess. Í dag er Bláa lónið þó fyrst og fremst staður sem allir, jafnt ungir sem aldnir, sækja sér til hressingar og afslöppunar.
Ég vil því biðja Grím Sæmundsen að koma hér og veita verðlaununum viðtöku.
Guðmundur Björnsson
Hvað er heilsutengd ferðaþjónusta.
Glærur (4 MB)
Guðmundur Björnsson er fæddur 10. október 1957 og lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1984. Hann varð sérfræðingur endurhæfingar-lækningum árið 1990 að loknu framhaldsnámi í Svíþjóð. Guðmundur starfaði m.a á árunum 1984 -1987 á slysadeild Borgarspítalans, í heilsugæslu og í áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar. Frá árinu 1992-2000 gegndi hann starfi yfirlæknis í Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Hann hefur starfað sem ráðgjafi í tryggingalæknisfræði og endurhæfingu m.a. fyrir Landlæknisembættið, Reykjavíkurborg, tryggingafélög og lögmenn. Guðmundur sat í aðalstjórn Læknafélags Íslands á árunum 1993-1999, tvö síðustu árin sem formaður. Guðmundur stofnaði fyrirtækið Saga Spa heilsuvernd og endurhæfing á síðasta ári og hefur starfað við það síðan.
Hrefna Kristmannsdóttir
Sérstaða íslenskrar náttúru, svo sem vatns og leirs.
Hrefna Kristmannsdóttir er fædd 20. maí 1944. Hún lauk stúdentsprófi frá Mennta-skólanum í Reykjavík 1963, cand. mag. prófi í efnafræði, jarðfræði og eðlisfræði árið 1967 við Háskólann í Osló og cand real. gráðu 1970 frá sama skóla. Hún var sérfræðingur á Jarðhitadeild Orku-stofnunar 1971-1976 og deildarstjóri jarðefna-fræðideildar og efnaf--ræði--stofu Orkustofnunar 1976-2001. Árið 1970-1971 var hún rannsóknarstyrkþegi við háskólann í Osló, gistikennari (visiting lecturer) við háskólann í Bristol, Englandi 1973-1974 og vann 1989 og 2000 við jarðhitarannsóknir við háskólann í Akita Japan. Hrefna hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands, kennt í sérhæfðum námskeiðum við Jarðhitaskóla Sam-ein-uðu þjóðanna og haft á hendi leiðsögn innlendra og erlendra námsmanna í námsverkefnum. Helstu verkefni hennar hafa verið rannsókn jarðhita, einkum á sviði borana, ummynd-unar, jarð-efna-fræði vatns og efnaskipta vatns og bergs, tæringar, útfellinga vinnslu-eftirlits fyrir hitaveitur og jarðhitaorkuver, rannsóknir á köldu vatni vegna verkefna á sviði vatnsorku-rannsókna og neysluvatnsathugana og jafnframt umhverfis- og mengunarrannsóknir. Hrefna hefur tekið þátt í og verið verkefnisstjóri í mörgum verkefnum í samvinnu við Útflutningsráð o.fl. aðila um Nýtingu jarðhita til ferðaþjónustu.
Anna G. Sverrisdóttir
Bláa Lónið - kynning.
Glærur (971 KB)
Friðfinnur Hermannsson
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga / Baðfélagið Mývatnssveit - kynning.
Glærur (1 MB)
Ásthildur Sturludóttir
Heilsuefling Stykkishólms - kynning.
Glærur (173 KB)
Sigmar B. Hauksson
Reykjavík Spa City - kynning.
Glærur (4 MB)
Guðrún Bergman
Brekkubær / Leiðarljós Snæfellsnesi - kynning.
Glærur (107 KB)
Helga Magnúsdóttir
ÍSÍ, Íþróttir og ferðaþjónusta - kynning.
Glærur (186 KB)
Stephan Ritter
Staða heilsutengdrar ferðaþjónustu á alþjóðavettvangi.
Glærur (602 KB)
Stephan Ritter lærði innanhúshönnun í Háskólanum í Munchen. (1980-1985). Í kjölfarið gerðist hann ráðgjafandi við uppbyggingu smáiðnaðar í austur og suður Afríku (1985-1990) og var jafnframt stundakennari í húsgagna- og innréttingasmíði í Munchen. Hr. Ritter hefur starfað við innanhúshönnun fyrir hótel, og heilsustöðvar ýmis konar, hann hefur átt þátt í þróun og framkvæmd vörumerkisins "Relax Group", verið hvatamaður að hugmynd, hönnun og markaðssetningu á "Relax Wellness centers" og "Relax Wellness Club". Hann hefur einnig átt mikinn þátt í þróun, hugmyndasmíði og markaðssetningu á heilsudvalarastöðum. Hr. Ritter er eigandi, hluthafi og / eða framkvæmdaraðili hinna ýmsu fyrirtækja er tengjast heilsutengdri starfsemi eins og t.d. "Relax Einrichtung GmbH", Relax Architektur GmbH, Relax Konzeption GmbH, Relax Akademy GmbH, Relax Management GmbH og frá árinu 2000 hefur hann verið framkvæmdastjóri "World Leisure GmbH".
Grímur Sæmundsen
Framtíð Íslands í heilsutengdri ferðaþjónustu í víðum skilningi
Grímur Sæmundsen er fæddur í Reykjavík þann 4. febrúar árið 1955. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1975 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1981. Hann hlaut almennt lækningaleyfi árið 1983 og lauk prófi í íþróttalæknisfræði frá London Hospital Medical College árið 1985. Hann vann sem sjálfstætt starfandi heimilislæknir ásamt að sinna þjónustu við íþróttafólk til ársins 1988 er hann hóf störf sem framkvæmdastjóri eigin heilbrigðisráðgjafar fyrir fyrirtæki. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Bláa Lónsins hf. frá stofnun félagsins árið 1992 og einnig framkvæmdastjóri Bláa Lónsins Heilsuvara ehf. frá stofnun þess félags árið 1996. Hann hefur setið og situr í stjórnum nokkurra fyrirtækja.
FRAMTÍÐ ÍSLANDS Í HEILSUTENGDRI FERÐAÞJÓNUSTU
Framtíðarímynd Íslands á að mínum mati að vera heilsa, hreinleiki, vellíðan og fegurð. Hugtakið "Ísland" og
vörutákn því tengt á að vera vörumerki fyrir þessa þætti: Ísland -heilsulandið.
Ég er sannfærður um að með slíku vörumerki megi skapa mikil verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú -miklu meiri en við njótum vegna núverandi ímyndar Íslands.
Heilsutengd ferðaþjónusta verður það tæki sem við munum nýta til að styðja og skapa ímynd þessa nýja vörumerkis.
Þess vegna er heilsutengd ferðaþjónusta mjög mikilvæg fyrir framtíðarþróun ferðaþjónustu á Íslandi.
Í skoðanakönnunum ferðamálaráðs meðal erlendra ferðamanna, sem heimsækja Ísland, kemur fram að meginaðdráttarafl Íslands er einstök náttúra þess. Menn hrífast af átökum höfuðskepnanna jarðar, elds, vatns og vinds í óbeislaðri, íslenskri náttúru.
Ímynd Íslands er því fyrst og fremst ósnortin náttúra skv. þessu, en mér er ekki kunnugt um, að gerðar hafi verið rannsóknir á ímynd Íslands í hugum erlendra neytenda, sem ekki hafa komið til Íslands. Helst að heyrst hafi að mönnum þyki Ísland langt í burtu og dýrt þegar á það er minnst.
Ósnortin náttúra þýðir ferskt loft, hreint vatn, víðáttu og umhyggju fyrir umhverfi, en þessir þættir eru allir stór hluti heilsuímyndar hvar sem er.
Það er því ljóst að stutt er milli tilhugsunar um ósnortna náttúru og heilsusamlega upplifun.
Að mínu mati felst í þessari staðreynd áhugavert tækifæri að þróa nú ímynd Íslands áfram frá því að vera eingöngu náttúruímynd yfir í heilsuímynd, þannig að þegar erlendur neytandi heyrir nafnið Ísland kemur heilsa, hreinleiki, fegurð og vellíðan fyrst upp í hugann.
Tekin verði ákvörðun um að þróa grunnþætti núverandi ímyndar Íslands með markvissum hætti áfram yfir í
heilsuímynd - að tengja þessa grunnþætti við heilsusamlega upplifun af einhverju tagi.
Þessir þættir byggja m.a. á ósnortinni náttúru landsins, eins og áður var vikið að,
-það er hollt að anda að sér fersku lofti,
-það er heilsusamlegt að drekka og baða í hreinu vatni,
-það er slökun fólgin í víðáttunni og
-það er andlegt jafnvægi sem fylgir góðri umgengni og virðingu fyrir umhverfinu,
en þar kemur miklu fleira til t.d.
heita vatnið tengist heilsuböðum,
íslenski fiskurinn og lambakjötið tengist heilsufæði og hollustu,
ýmis konar fæðubótarvörur og húðvörur tengjast æsku og fegurð, náttúruskoðun tengist hollri hreyfingu útí
náttúrunni o.s.frv.
Þá má ekki gleyma að Ísland er með öruggari áfangastöðum í heiminum nú. Það hefur vissulega áhrif á heilsu og líðan.
Síðast en ekki síst er auðvelt að koma þeirri fjölbreyttu afþreyingarþjónustu sem þróuð hefur verið á síðustu árum og einnig menningarþjónustu fyrir undir hatti heilsutengdrar ferðaþjónustu.
Menningarneysla verður slökun og næring skilningarvitanna.
Hvati hins erlenda neytanda til heimsækja Ísland verður að fyllast lífsþrótti og bæta hreysti og auka vellíðan. Ísland tengist heilsusamlegum lífstíl í víðri merkingu hugtaksins.
Ávinningurinn verður skírskotun til breiðari markhóps en áður sem er tilbúinn til að eyða meiri peningum en áður.
Þetta fer saman við þá skoðun mína að við eigum ekki síður að reyna að afla meiri tekna af hverjum erlendum gesti frekar en að reyna að fjölga þeim.
Ísland verður hvorki dýrt né langt í burtu vegna þess að peningar skipta ekki máli og langt ferðalag verður stutt í huga ferðalangsins, þegar heilsan er annars vegar, jafnvel þótt hið gagnstæða geti verið staðreynd í báðum tilvikum.
Jákvæð hugrenningatengsl sem heilsuhugtakið skapar skipta hér höfuðmáli.
Í þessu sambandi er vert að nefna að umsvif heilsutengdrar ferðaþjónustu í Ungverjalandi eru metin á um 36 milljarða króna á ári, en einungis rúmlega 11% þessara umsvifa er vegna heilsuþjónustu eða meðferða sem eru meginhvati ferðar viðkomandi.
Mikil alþjóðleg aukning eftirspurnar er eftir ýmis konar heilsuþjónustu. Bæði karlar og konur hugsa æ meira um heilsuna og lífsgæði henni tengd og er tilbúnari en áður að eyða meiri fjármunum í eigin vellíðan og heilsu - eða health over wealth eins og sagt er.
Þessi vöxtur er fyrst og fremst borinn af s.k. spa-stöðum, sem bjóða ýmist dagþjónustu eða þjónustu tengda lengri dvöl. Má nefna í þessu sambandi að velta spa staða í Bandaríkjunum jókst um 152% frá árinu 1997 til 1999 eða úr 2,1 í alls 5,3 milljarða Bandaríkjadala.
Þegar hefur verið fjallað um skilgreiningar á heilsutengdri ferðaþjónustu og fer ég því ekki nánar út í þá sálma hér.
Segja má að upphaf uppbyggingar heilsuímyndar Íslands sé viðhorfsbreyting og skilningur okkar sjálfra.
Ég tel að frumkvæði samgönguráðherra og ferðamálayfirvalda í þessu efni m.a. með því að setja stofn nefnd um heilsutengda ferðaþjónustu og framfylgja niðurstöðum hennar s.s. með því að halda þessa ráðstefnu staðfesti að þessi viðhorfsbreyting hafi átt sér stað.
Næsta skref, innviðauppbygging er hafin. Í því sambandi er mikilvægt að átta sig á að hinn breiði fjöldi sem vill njóta heilsutengdrar ferðaþjónustu er ekki sjúklingar heldur einstaklingar á góðum aldri, við ágæta heilsu, sem vilja taka á lífsstílstengdum vandamálum s.s. streitu, yfirþyngd, þrekleysi o.sfrv.
Reykjavíkurborg kynnir nú borgina sem spa city og það er ótrúlegt hvað sú breyting að kalla laugarnar thermal baths í stað swimming pools hljómar miklu betur og er áhrifamikil. Við vitum öll að íslenskar baðlaugar standa laugum í erlendum borgum, sem eru markaðssettar sem heilsulindir ekkert að baki.
Nýr baðstaður hefur verið opnaður við Bláa lónið og frekari uppbygging framundan.
Heilsustofnun NLFÍ undirbýr byggingu baðhúss með margvíslegri þjónustu.
Baðfélagið í Mývatnssveit þróar meðferðir byggðar á íslenskri baðhefð.
Brekkubær þróar andlegar meðferðir byggðar á náttúrukröftum Snæfellsjökulssvæðisins.
Hafin er rekstur heilsulinda á hótelum, Planet Pulse á Hótel Esju og Mecca Spa á Hótel Sögu.
Það vekur eftir vill athygli að ég, læknirinn, nefni ekki húðmeðferðir fyrir psoriasissjúklinga við Bláa lónið, gigtarmeðferðir í Hveragerði eða heilsubótarferðir fyrir frjóofnæmissjúklinga, svo ekki sé talað um tæknifrjóvganir, mjaðmarliðaaðgerðir eða opnar hjartaskurðaðgerðir.
Það er vegna þess að eðli máls samkvæmt er hér um að ræða sértæka markhópa sem yfirleitt njóta opinberra niðurgreiðslna í heimalandi og slík verkefni þarfnast sérhæfðrar markaðssetningar, sem er flókin vegna þess að sá sem nýtur þjónustunnar greiðir etv. ekki fyrir hana nema að litlu leyti.
Það var þetta sem ég átti við þegar Guðmundur vitnaði til mín í morgun.
Við eigum að beina kröftum okkar að velstæðum fullborgandi viðskiptavinum.
Þá má ekki gleyma að þjónusta af því tagi sem hér er nefnd er nú að mestu leyti rekin og fjármögnuð af opinberum aðilum og ekkert svigrúm í því kerfi til að skapa gjaldeyristekjur.
Þessi heilsuþjónusta getur stutt með öflugum hætti við heilsuímynd Íslands en er of sértæk til að ná almennari skírskotun til heilsusamlegs lífsstíls.
Í þessu sambandi má nefna að meðferðir fyrir húðsjúklinga ið Bláa lónið styðja við heilsuímynd lónsins sem er þó fyrst og fremst slökunar- og vellíðunarímynd.
Nú er gerðir pakkar/pródúkt svo ég noti slangur úr ferðaþjónustunni, sem byggja á heilsuímynd Íslands vegna þess að nú eru inniviðir til staðar til að slíkt sé unnt.
Gott dæmi um þetta er Stress Busting Weekends, sem nú eru boðnir í Bretlandi til reynslu, þar sem þátttakendur fara á milli íslenskra heilsustaða. Aðdráttaraflið er Ísland - heilsa og lífsþróttur.
Fjöldi hugmynda á þessu sviði er á sveimi og halda þarf áfram kröftugri innviðauppbyggingu bæði í uppbyggingu aðstöðu og þjónustuþróun, til að heilsutengd ferðaþjónusta geti sinnt því meginhlutverki að styðja og styrkja heilsuímynd Íslands.
Í þessu efni þurfa opinberir aðilar og einkaðilar að taka saman höndum.
Einkaaðilar þurfa að sinna nýsköpun og leggja sérstaka áherslu að þróa séríslenskar lausnir í heilsuþjónustu. Það er geysilega mikilvægt að skapa fjölbreytni og að hinum ýmsu staðir og þjónustuaðilar skilgreini og byggi á eigin sérstöðu.Þetta stuðlar að því ásamt öllum hinum þáttunum, sem raktir hafa verið, að skapa alþjóðlega vörumerkið "Ísland - heilsuland"
Forysta opinberra aðila í kostun markaðssetningar heilsuímyndarinnar er mikilvæg, því að eðli máls samkvæmt fellur slíkur kostnaður oftast annars staðar en tekjurnar, en ávinningur hins opinbera er skýr.
Þá er forysta opinberra aðila í umhverfismálum gríðarlega mikilvæg, þar sem hugtökin heilsa og umhverfi eru nántengd.
Ég er sammála niðurstöðum nefndar um heilsutengda ferðaþjónustu.
Fyrsta forgangsverkefni ferðamálayfirvalda nú á að vera skilgreina og kynna Ísland sem heilsuland og þróa hugtakið "Ísland" sem alþjóðlegt vörumerki með þá ímynd.
Af hverju?
Ávinningurinn er augljós og nú erum við tilbúin.
Takk fyrir.
Erna Hauksdóttir
Samantekt
Glærur (114 KB)
Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, sleit að lokum ráðstefnunni og þakkað fyrirlesurum og öllum ráðstefnugestum ánægjulega samveru.